Ekki svigrúm til nýrra útgjalda ríkissjóðs

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir ýmis jákvæð teikn á lofti í baráttunni gegn kórónuveirunni, ríkir enn mikil óvissa um framtíð hennar. Fjármálaráðherra segir það stöðugan lærdóm að meta áhrif faraldursins á efnahag landsins og úrræðin þurfi að taka mið af þeirri óvissu sem ríkir. Þá segir hann ekki svigrúm fyrir ný rekstrarútgjöld.

Í samtali við mbl.is rekur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra stöðu fjármála og efnahags nú í lok fyrsta misseris faraldursins. Hann segir að tímabilið hafi markast af mikilli óvissu og stöðugum lærdómi um áhrif veirunnar og þeirra úrræða sem hægt er að beita til efnahagslegrar viðspyrnu. Hann telur að ferlið hafi gengið vel, en segir að horfast verði í augu við að ekki sé hægt að sjá langt inn í framtíðina hvað áhrifin varðar, hvorki á alþjóðavísu né innanlands.

Bjarni bendir á að áhrifin séu ekki bara á ferðaþjónustu, heldur einnig á orkufrekan iðnað, sem auki enn á vandann. Um viðbrögð stjórnvalda segir Bjarni: „Við höfum lagt áherslu á að nota sveiflujafnara ríkisfjármála, sem byggir á góðri skuldastöðu og leyfum ríkissjóði að fara í gegn með halla, í þeirri trú að það sé besta stefnan í dag,“ með því megi verja störfin og forðast harkalegan niðurskurð og skattahækkanir, sem myndi verka sem „tvöfaldur löðrungur á hagkerfið“. Hann segir að með opinberu fjárfestingarátaki sé farið á móti straumnum, til að tryggja betri landsframleiðslu og fleiri störf í þeirri trú að „vélarnar fari í gang sem fyrst“.

Bakslag veirunnar og áhrif þess

Í máli sóttvarnalæknis í gær kom fram álit hans að margt væri óráðið um þróun kórónuveirufaraldursins og eitt til tvö ár gætu verið í nothæft bóluefni. Spurður um framtíðarhorfur segir Bjarni að ástandið eigi að vera okkur áminning um skynsamlega hegðun. Ekki megi gera ráð fyrir því að veiran hverfi, heldur verði að gera allt til að hefta útbreiðslu hennar, ellegar sitja uppi með neikvæðar afleiðingar. Hann segir það alveg ljóst að ef ekki takist að örva hagvöxt, þá bíði ekkert annað en aðlögun að nýjum veruleika. „Þá þurfum við að sætta okkur við að sú opinbera þjónusta sem við höldum úti í dag, að verðmætasköpun stendur ekki undir henni.“ Hann bætir við að áherslan sé á að endurheimta verðmætasköpun, en að ekki sé svigrúm fyrir ný rekstrarútgjöld.

Víða jákvæðni

Bjarni segir að margt gangi vel þessa dagana. Mikið líf sé í innlendri eftirspurn og á ferðalagi um landið hafi hann orðið þess var að talað sé um Íslendinga sem góða viðskiptavini. Blikur eru þó á lofti í ferðaþjónustu og líkur á samdrætti þegar sumarleyfisdögum landans lýkur. Um úrræði ríkisstjórnar segir Bjarni að mörg úrræði hafi verið kynnt og langt hafi verið gengið í því að veita fyrirtækjum skjól. Nefnir hann stuðning á uppsagnarfresti og stuðningslán sem veitt eru í gegnum fjármálafyrirtækin, en bendir jafnframt á að því miður muni mörg fyrirtæki þurfa að laga sig að minni eftirspurn. Aðspurður um framtíðina segir Bjarni að á hana verði að trúa. Veiran muni ganga yfir og þá verði innviðir og reynsla til staðar. Margt verði þó líklega gert öðruvísi en í síðustu atlögu, sem einkenndist af gríðarlegum vexti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert