Youtube-stjarna kannaði tilvist Kolbeinseyjar

Kolbeinsey er 60 kílómetrum norðar en Grímsey og er, samkvæmt …
Kolbeinsey er 60 kílómetrum norðar en Grímsey og er, samkvæmt myndbandinu, ennþá til. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Kolbeinsey er ennþá til. Þetta staðfestir Youtube-framleiðandinn Tom Scott, sem sérhæfir sig í framleiðslu fræðandi myndbanda á miðlinum. Hann heimsótti Ísland á dögunum, og annálar ævintýri sitt á Youtube-rás sinni.

Norðan heimskautabaugsins er sólskin allan sólahringinn í það minnsta einn sólahring á ári, úrskýrir Scott. Ísland sé í raun ekki norðan heimskautabaugsins, að undanskildu litlu svæði í Grímsey.

Áætlun Scotts var að heimsækja Grímsey, sem hann taldi nyrsta hluta Íslands, og skoða minnisvarða sem markar staðsetningu heimskautabaugsins. Heimskautabaugurinn færist hins vegar hægt og rólega norðar og norðar, útskýrir Scott, og því gæti Grímsey, sem og Ísland, orðið sunnan við heimskautabaug innan skamms.

Svo rekur hann augun í Kolbeinsey, sem er 60 kílómetrum norðar en Grímsey. Kolbeinsey sé hinsvegar svo lítil að hún gæti horfið, og sé jafnvel horfin þegar. Á Wikipedia-síðu fyrir Kolbeinsey, sem Scott vísar í, segir að eyjan gæti horfið undir sjávarmál í kringum árið 2020.

Til að athuga hvort Kolbeinsey sé í raun til staðar leigir hann flugvél. Tilvist Kolbeinseyjar gæti skipt máli fyrir landhelgi Íslands. Bendir Scott á að það gæti þótt einkennilegt að Englendingur eins og hann sé að skoða tilvist eyju sem gæti haft áhrif á landhelgi Íslands, þar sem England hafi tapað þorskastríðinu, þar sem helsta deilumálið var landhelgi Íslands.

Í flugferð sinni staðfestir Scott að Kolbeinsey sé ennþá til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert