Segir SA ekki komast inn í samtalið

Halldór Benjamín Þorbergsson.
Halldór Benjamín Þorbergsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að verkalýðshreyfingin verði að hleypa samtökunum inn í samtal um forsendur lífskjarasamningsins.

Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir því að fresta þeim launahækkunum sem samið var um í lífskjarasamningnum vegna kórónukreppunnar. Samtökin greiða atkvæði á morgun um hvort samningnum skuli sagt upp.

„Ég er til í að skoða allar útfærslur,“ sagði Halldór í Silfrinu á RÚV, spurður hvað SA gæti lagt til málanna. Nefndi hann meðal annars að hægt væri að vaxtareikna laun þannig að því sem yrði frestað myndi bera vexti.

„Vandamálið er að þegar mótaðilinn hafnar því að eiga samtalið þá erum við í dálitlum vanda,“ sagði hann og bætti við að málamiðlun væri nauðsynleg í samtali sem þessu þar sem allir þurfi að leggja eitthvað til málanna. Hann sagði að verkalýðshreyfingin geti ekki „setið bara á hliðarlínunni og sagt að allir aðrir þurfi að bregðast við“.

900 milljarðar horfnir út úr hagkerfinu

Spurður út í forsendur lífskjarasamningsins sem hann segir brostnar, nefndi hann annars vegar yfirlýsingu stjórnvalda í sjö liðum um samninginn og hins vegar þær breytingar sem hafi orðið vegna kórónuveirunnar.

Hann sagði allt vera breytt. 900 milljarðar króna séu horfnir út úr hagkerfinu á samningstímanum og bara á árinu 2021 séu 300 milljarðar horfnir út úr verðmætasköpuninni. Bætti hann við að hver launahækkun lífskjarasamningsins kosti á bilinu 45 til 50 milljarða króna og sagði óskynsamlegt að fara í launahækkanir á þessum tímapunkti.

Vitnaði í Bubba 

Hann sagði fyrirtæki sem standa fyrir algjöru tekjufalli ekki geta efnt kjarasamninga með launahækkunum og bætti við að Bubbi Morthens orði hlutina best: „Baráttan hún er vonlaus þegar miðin eru dauð“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert