Ánægja með markmið stjórnarskrárbreytinga

Farið verður yfir ábendingar nefndarinnar á næstu vikum, en stefnt …
Farið verður yfir ábendingar nefndarinnar á næstu vikum, en stefnt er að því að frumvörpin verði lögð fyrir formenn stjórnmálaflokkanna. mbl.is/Ófeigur

Feneyjanefnd Evrópuráðsins lýsir yfir ánægju með markmið breytinga á stjórnarskrá Íslands, sem og þær leiðir sem farnar voru við gerð breytingatillagnanna. Þetta kemur fram í áliti Feneyjanefndarinnar á fjórum frumvörpum til stjórnskipunarlaga sem nefndin birti í gær.

Yfirlýst markmið breytinganna eru að bæta stjórnarskrána til að hún endurspegli sameiginleg grundvallargildi Íslendinga og leggi traustan grunn að lýðræðis- og réttarríki þar sem vernd mannréttinda er tryggð.

Fyrirhugað er að afmarkaðar breytingar verði gerðar á tveimur kjörtímabilum, en á árunum eftir efnahagshrunið hafi verið reynt að setja saman glænýja stjórnarskrá. Feneyjanefndin telur það utan hlutverks síns að blanda sér í deilur um hvor leiðin sé betri.

Frumvörpin verði lögð fyrir formenn

Feneyjanefndin hefur það hlutverk að veita ríkjum lögfræðilegt álit á lagafrumvörpum sem eru mikilvæg fyrir lýðræðislega virkni stofnana og styrkja hin svokölluðu sameiginlegu evrópsku gildi stjórnskipunar.

Í álitinu kemur fram að það þurfi að gefa íslensku þjóðinni sannfærandi skýringar á nálgun stjórnvalda og öllum verulegum breytingum frá tillögunum, þar sem tillögurnar hafi verið bornar upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar hafi verið samþykkt að drögin yrðu grundvöllur nýrrar stjórnarskrár.

Í áliti nefndarinnar er að finna ábendingar um efni frumvarpanna, sem finna má á vef stjórnarráðsins. Í framhaldinu verður unnið úr ábendingunum í forsætisráðuneytinu, svo hægt verði að taka ákvörðun á næstu vikum um framlagningu frumvarpanna á vettvangi formanna stjórnmálaflokkanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert