Vill sameina skattrannsóknarstjóra og Skattinn

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp um sameiningu embættis skattrannsóknarstjóra og Skattsins. Þetta er gert til að efla rannsóknir á skattaundanskotum og til að leggja aukinn þunga í baráttuna gegn skattsvikum.

Þá kveður frumvarpið einnig á um að rannsóknarferli í kjölfar skattalagabrota verði gert gegnsærra og skilvirkara og að málsmeðferðartími verði styttur.

Vegna dóma MDE

Fram kemur á vef Stjórnarráðsins að forsögu málsins megi rekja til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í tengslum við rannsókn og saksókn skattalagabrota. Í tilefni af þeim dómum ákvað dómsmálaráðherra í apríl árið 2019 að skipa nefnd, í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra, að skipa nefnd um rannsókn og saksókn skattalagabrota.

Nefndin hafði það hlutverk að skoða kröfur MDE og greina þær með það að markmiði að móta stefnubreytingar í málaflokknum hér á landi. Nefndin skilaði svo skýrslu um málið 11. september 2019.

Brugðust við

Innleidd voru bráðabirgðaákvæði í skattalög til þess að bregðast strax við þeim vanda sem ljós var í kjölfar fyrrgreindra dóma MDE. Í lok janúar á þessu ári var svo skipaður vinnuhópur sem ætlað var að koma með tillögur að lagabreytingum sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar sem dómsmálaráðherra skipaði í apríl 2019.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert