Ekki útilokað að hægt sé að slaka á aðgerðum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fór yfir árangurinn af aðgerðum til að …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fór yfir árangurinn af aðgerðum til að takmarka útbreiðslu veirunnar á landamærum. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fjallaði um árangurinn af aðgerðum á landamærum á upplýsingafundi almannavarna í dag í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið vegna þeirra aðgerða, sem sumir telja of strangar.

Hann sagði ekki tímabært að slaka á aðgerðum innanlands sem hafa verið í gildi síðustu vikur og eiga að gilda til 17. febrúar en þær séu þó alltaf í endurskoðun. Það sé ekki útilokað að hægt sé að slaka á núna á næstunni.

450 afbrigði greinst en aðeins 13 innanlands

Í máli hans kom fram að val um 14 daga sóttkví eða tvöfalda skimun hefur verið við lýði frá 19. ágúst á síðasta ári. Síðan þá hafi 56 þúsund fullorðnir einstaklingar komið hingað til lands og 3.800 börn. 54 þúsund af þeim hafa farið í alla vega eina skimun og 52 þúsund hafa farið í seinni skimum.

Af þessum 54 þúsund hafa 590 greinst með virk smit eða um 1%. Fjöldi mismunadi afbrigða sem greinst hefur á landamærunum er 450 en á sama tíma hafa aðeins 13 afbrigði greinst innanlands.

Bláa og græna veiran fyrirferðarmestar

Í annarri bylgju voru langflestir smitaðir af svokallaðri grænu veiru en bláa veiran eða franska veiran var fyrirferðarmest í þriðju bylgju og hefur verið síðan. Þá nefndi Þórólfur að vel hefur tekist að takmarka útbreiðslu bresku veirunnar svokölluðu eða B.1.1.7, sem veldur hvað mestum usla í Evrópu núna.

Alls hafa 48 greinst hér á landi með B.1.1.7 en suðurafríska og brasilíska afbrigðið hefur ekki enn greinst hér á landi.

Fullyrti Þórólfur að aðgerðir á landamærum hefðu verið mjög áhrifaríkar til að halda faraldrinum í skefjum og það væri athyglisvert að núna væru nágrannaþjóðir okkar að taka upp svipaðar áherslur.

Hann sagðist vona til þess að hægt væri að bólusetja þorra landsmanna á næstu mánuðum en að samstaða og þolgæði væru okkar sterkustu vopn í baráttunni við veiruna næstu vikur og mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert