Get ég verið stoltur eða var ég að þvælast fyrir?

Rögnvaldur Ólafsson og Þórólfur Guðnason voru á upplýsingafundi almannavarna í …
Rögnvaldur Ólafsson og Þórólfur Guðnason voru á upplýsingafundi almannavarna í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Það er engin ástæða til að slaka á gagnvart faraldrinum eða setja smitvarnir og ábyrga hegðun í annað sætið. Það eru vísbendingar um að fólk sé farið að slaka á, fleiri séu að hittast og í stærri hópum, sagði Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á upplýsingafundi almannavarna.

Hann minnti á að það þurfi ekki nema eitt smit til að koma stórri bylgju af stað. Sem dæmi um það nefndi hann þróunina dagana 11.-18. september en þá greindist eitt smit, svo tvö og þrjú á þriðja degi. Næstu daga voru þau sjö talsins, svo 15 en þann 18. september voru þau 74 talsins.

Það þyrfti því að hafa í huga að þótt staðan sé góð, sérstaklega miðað við löndin í kringum okkur, þá er hún viðkvæm og getur breyst hratt.

Hann bað fólk um að spyrja sig hvernig það ætlaði að haga sér um helgina, hvort það væri í samræmi við aðgerðir gegn hópamyndun. Þá ætti fólk að spyrja sjálft sig að því hvað það gæti sagt í framtíðinni þegar spurt er hvað það lagði af mörkum þegar faraldurinn gekk yfir.

„Get ég verið stoltur af mínu framlagi eða var ég að þvælast fyrir?“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert