Endurgreiðslur upp á 19,7 milljarða

Himar Harðarson, formaður Samiðnar.
Himar Harðarson, formaður Samiðnar. Ljósmynd/Aðsend

Endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna endurbóta og viðhalds á árinu 2020 undir átakinu Allir vinna námu 19,7 milljörðum. 

Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar, samtaka iðnfélaga, segir að átakið hafi sannað gildi sitt á erfiðum tímum í efnahagslífinu. Hann segir sömuleiðis að mikilvægt hafi verið að framlengja átakið út árið 2021. 

Ein af fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirukreppunnar var að hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts frá 60 prósent í 100 prósent í mars í fyrra. Einnig voru skilyrði til endurgreiðslu útvíkkuð svo að þau náðu til fleiri iðngreina. 

Heildarfjöldi umsókna um endurgreiðslur á árinu 2020 var 45.330. Árið 2019 voru þær 11.635. Þá gæti verið von á einhverjum fjölda umsókna en vegna ársins 2020. Fjöldi umsókna sem afgreiddar hafa verið vegna ársins 2020 er 53.703 og fjárhæð þeirra samtals 19,7 milljarðar.

Hilmar bendir á í yfirlýsingu að „að heimild til endurgreiðslu á virðisaukaskatti sé jafnframt víðtækari á þessu tímabili en áður og tekur m.a. til frístundahúsnæðis, mannvirkja í eigu tiltekinna félagasamtaka og bílaviðgerða eins og Samiðn lagði mikla áherslu á“. 

Áhersla á átakið

Hilmar segir í sömu yfirlýsingu að hann fagni því ákveðið var að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna vinnu við íbúðarhúsnæði fram til ársloka 2021, og víkka út þá heimild þannig að hún taki m.a. einnig til húsnæðis í eigu sveitarfélaga og bílaviðgerða. 

Við hjá Samiðn lögðum mikla áherslu á þetta átak Allir vinna enda er það atvinnuskapandi og einnig mikilvægt út frá neytendasjónarmiðum enda tryggir það enn frekar að leitað sé til fagmanna sem er mikið kappsmál allra. Covid-ástandið hefur gert það að verkum að það er ágjöf á atvinnulífið og því er sérlega brýnt að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og stuðla að því skili mikilvægum virðisaukandi verkefnum til samfélagsins. Átakið Allir vinna hefur skilað okkar félagsmönnum aukinni vinnu og verkefnum á þessum erfiðu tímum. Á sama tíma lækkar átakið kostnað almennings en það er mikilvægt að hann geti leitað til fagmanna varðandi byggingarframkvæmdir og bílaviðgerðir og hins vegar verndar það mikilvæg störf í iðngreinum,“ segir Hilmar Harðarson. 





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka