Fangelsin nánast fullnýtt

Fangelsið á Hólmsheiði.
Fangelsið á Hólmsheiði. mbl.is/Árni Sæberg

Rekstur fangelsiskerfisins er kominn í eðlilegt horf eftir „áskoranir og vandræði vegna Covid-19 faraldursins“. Nú eru fangelsi landsins nánast fullnýtt en aldrei hafa fleiri afplánað fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu en í dag eða 210 einstaklingar.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu Fangelsismálastofnunar. 

„Þegar höft voru hvað mest var nauðsynlegt að skipta stærri fangelsum upp í sóttvarnahólf sem dró verulega úr nýtingarmöguleikum auk þess sem nánast allir vinnustaðir í samfélagsþjónustu lokuðu eða drógu verulega úr starfsemi,“ segir í færslunni.

Þar kemur fram að þetta hafi allt saman gengið vel og ástæða sé til þess að hrósa starfsfólki, skjólstæðingum og öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg við að reka fullnustukerfið á erfiðum tímum, allt án þess að smit bærist í einstakar einingar kerfisins.

„Fram undan er að létta enn frekar á höftum sem enn eru til staðar en miðað við litla útbreiðslu veirunnar á landinu er líklegt að á næstunni geti allt fullnustukerfið starfað nánast eins og í venjulegu árferði. Þó er nauðsynlegt að allir haldi vöku sinni og sinni persónubundnum sóttvörnum eins og gert hefur verið með góðum árangri til þessa,“ segir í færslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka