Brot á sóttvarnalögum eða eðlileg ráðstöfun?

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að opna landamærin fyrir fólki sem kemur frá löndum utan Schengen framvísi það vottorðum. Þetta virðist ríkisstjórnin hafa gert að höfðu samráði við ferðaþjónustuna, enda eru þar miklir hagsmunir í húfi sem við höfum öll skilning á,“ sagði Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag.

Hann sagði ýmsa hættu fylgja þessu og litakóðunarkerfi á landamærum sem tekur gildi 1. maí næstkomandi þegar ferðafólk frá „grænum löndum“ þarf eingöngu að framvísa niðurstöðum úr neikvæðu PCR-prófi og fara í skimun á landamærum.

Guðmundur spurði Bjarna Benediktsson fjármálráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins hvort mögulegt væri að þetta stangist á við 12. grein sóttvarnalaga og sagði að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefði ekki verið með í ráðum varðandi þessi mál.

Ráðherra ákveður að fenginni tillögu sóttvarnalæknis hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana“,“ sagði Guðmundur Andri þar sem hann vitnaði í hluta 12. greinarinnar og spurði hvort löglega væri staðið að þessari ákvörðun.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni sagði málið efnislega snúa að því að á landamærum hyggjumst við taka það gilt ef fólk er með viðurkennt bólusetningarvottorð.

Trúum við því ekki að bólusetningin dugi og virki?

Við skulum aðeins velta þessu fyrir okkur: Bólusetjum við ekki nú í dag eins hratt og við getum? Trúum við því ekki að sú bólusetning muni duga og virka? Höfum við ekki boðað það að þegar við höfum bólusett þjóðina getum við dregið úr sóttvarnahömlum og takmörkunum á venjulegu lífi fólks vegna þess að bóluefnið muni duga til að koma í veg fyrir að við búum við hættuna á því að ofgera heilbrigðiskerfinu, að þar leggist inn of margir, til þess að ekki sé reynt á þanþol heilbrigðiskerfisins og margir séu í lífshættu? Trúum við þessu eða ekki?“ sagði Bjarni.

Guðmundur Andri sagðist auðvitað trúa því að bóluefnin muni virka og breyta íslensku þjóðlífi til hins betra. Hans fyrirspurn snerist hins vegar ekki um það.

Án samráðs við sóttvarnalækni

Þetta snýst um að fara að sóttvarnalögum, fara að 12. grein sóttvarnalaga þar sem segir, með leyfi forseta: „Ráðherra ákveður að fenginni tillögu sóttvarnalæknis hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana“ og svo framvegis. Það hefur ekki verið gert hér. Það hefur komið fram hjá sóttvarnalækni að ekki hafi verið haft samráð við hann og hann hefur látið á sér skilja að honum þyki þetta óráðlegt og ótímabært. Því spyr ég hæstvirtan ráðherra aftur hvort hann telji að hér hafi verið farið að lögum,“ sagði Guðmundur Andri.

Bjarni sagðist ekki hafa neina skoðun á því hvort málin standist 12. grein laganna. Málið hafi stórkostlega efnislega þýðingu fyrir íbúa þessa lands, ekki bara í efnahagslegu tilliti, heldur líka varðandi frelsi innan lands til að endurheimta fyrra líf.

Hér er hæstvirtur þingmaður að láta í það skína að það sé verið að taka mikla áhættu með því að treysta á bóluefnin, að við þurfum að gæta okkar á því að fara ekki fram úr okkur. Ef þessi málflutningur á að ráða för hlýtur hann eins að gilda gagnvart fólki hér innan lands eins og þeim sem koma bólusettir yfir landamærin. Það þýðir þá það, ef menn trúa þessu alla leið, að almenn bólusetning hér innan lands verði ekki lykillinn að því að endurheimta fyrra frelsi. Ég segi þetta vitandi allt um það að ný afbrigði veirunnar geta komið upp sem þarf að bregðast við. En að því gefnu að við séum ekki að glíma við eitthvað slíkt finnst mér þetta hafa verið mjög eðlileg ráðstöfun hjá ráðherranum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert