Hugur Ölmu hjá jarðvísindamönnum

Benedikt Ófeigsson jarðeðlisfræðingur sagði líkurnar vera að minnka á gosi …
Benedikt Ófeigsson jarðeðlisfræðingur sagði líkurnar vera að minnka á gosi í kvöldfréttum RÚV í kvöld. Nokkrum klukkustundum síðar hófst eldgos. Alma Möller landlæknir hefur samúð með stöðu hans. Samsett mynd/RÚV - mbl.is

„Hugur minn er hjá okkar frábæru jarðvísindamönnum, þeir munu leiða okkur áfram ásamt Almannavörnum,“ segir Alma Möller landlæknir í athugasemd við færslu á Facebook, þar sem fólk lýsir yfir samúð sinni með jarðeðlisfræðingi sem sagði í sjónvarpsfréttum fyrr í kvöld að hann ætti ekki von á gosi á næstunni.

Sú spá rataði í fyrirsögn, þar sem hún eltist ekki vel. Misræmi á vef RÚV vakti athygli marga þegar gosið var hafið, enda var viðtalið við Benedikt Ófeigsson enn á forsíðunni: „Á síður von á eldgosi“

Þegar vel er að gáð tekur jarðeðlisfræðingurinn þó skýrt fram að allt sé enn óvíst um framhaldið og þetta mat taki aðeins mið af stöðunni eins og hún blasti við fyrr í kvöld.

Skjáskot/RÚV

Mál fyrir eineltisnefnd vísindamanna

Magnús Karl Magnússon læknir og prófessor biðlaði til vina sinna á Facebook í kvöld að hlífa jarðeðlisfræðingnum við stríðninni vegna ummæla hans í fréttunum. 

Ef einn í viðbót deilir viðtali við jarðvísindamanninn sem taldi engar líkur eldgosi þá kæri ég viðkomandi fyrir eineltisnefnd vísindamanna. PS Hann á alla mína samúð,“ skrifar Magnús.

Alma landlæknir sendir kveðjur til jarðvísindamannanna, enda má segja að þeir séu í vissum skilningi teknir við almannavarnavaktinni, sem hún stóð síðasta árið, ens og frægt er orðið. Sannarlega stendur kollegi hennar Víðir Reynisson þá vakt enn og stýrir nú aðgerðum vegna eldgossins.

Meginatriðið í umræðunum sem sköpuðust við færslu Magnúsar er sú krappa staða vísindamanna að vera stanslaust krafðir svara um þætti sem ógerningur er að segja til um. Í einni athugasemd er bent á þetta og sagt að vísindamenn eigi skilin þolinmæðisverðlaun og þar segir Alma Möller: „Tek undir það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert