Gagnrýnir íslenska ríkið og Play

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/ASÍ

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir íslenska ríkið hafa gefið fjármagnseigendum og þeim sem gátu keypt sér hlut í Íslandsbanka nokkra milljarða úr almannasjóðum við söluna á bankanum. Við þessu hafi verkalýðshreyfingin varað.

Þá segir hún einkavæðingu í öldrunarþjónustu hafna af fullum krafti og ljóst sé að fyrirtæki sem taka að sér einkarekstur ætli sér ekki að gera það af hugsjóninni einni. Það hafi sannast þegar uppsagnir hófust.

Hún segir Play hafa farið í loftið fljúgandi á undirboðum á vinnumarkaði, gerandi samning um kjör flugþjóna án aðkomu þeirra og kynnt sig fyrir fjárfestum að fyrirtækið geti umfram önnur „haldið starfsmannakostnaði niðri“. Þeirri baráttu sé langt því frá lokið.

Hlutafjárútboði Play lauk í dag.
Hlutafjárútboði Play lauk í dag.

Alþjóðlegur fyrirtækjaskattur

Þetta kemur fram í pistli Drífu sem birtist á vef samtakanna í dag.

Hún bendir einnig á að samningsviðræður um alþjóðlegan fyrirtækjaskatt séu hafnar og tekist verður á um málið á vettvangi OECD og G20 ríkjanna um þessi mánaðarmót. 

Þar stendur að annars vegar verði rætt um skattlagningu alþjóðlegra fyrirtækja sem starfa á netinu og sé tillagan á þá leið að ríki geti skattlagt hagnað sem verður til innan þeirra lögsögu. Þá sé hins vegar rætt um alþjóðlegan lágmarksskatt á fyrirtæki og hefur hlutfallið 15% verið nefnt í því samhengi.

Alþjóðaverkalýðshreyfingin segist taka undir þetta en vill þó hækka hlutfallið í a.m.k. 25%, „enda þurfi að sækja fjármagn til þeirra sem eru aflögufærir“.

Viðsnúningur í heimsstjórnmálum

Í pistlinum segir Drífa það æpandi ósanngjarnt, sérstaklega á tímum heimsfaraldursins, að mörg stórfyrirtæki greiði sama sem engan skatt og það sé sérstök fræðigrein að koma sér hjá skattgreiðslum um allan heim.

Hún segir það stórtíðindi þegar leiðtogar stærstu ríkja heims reisa kröfur gegn skattaundanskotum og það til marks um viðsnúning í heimsstjórnmálunum.

„Frá óheftri markaðshyggju til einhvers konar vísis að samtryggingu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert