Á blæðingum í 53 daga í kjölfar bólusetningar

Konur hafa lýst röskun á tíðahring í kjölfar bólusetninga.
Konur hafa lýst röskun á tíðahring í kjölfar bólusetninga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Yfir 600 manns hafa gengið í Facebook-hópinn Tíðahringur bólusettra kvenna gegn C19. Þar lýsa konur hugsanlegum aukaverkunum í kjölfar bólusetningar við Covid-19.

Rebekka Ósk Sváfnisdóttir er stofnandi hópsins en hún hefur auk þess hafið undirskriftasöfnun þar sem skorað er á landlækni að rannsaka málið og gefa konunum svör. Listinn verður afhentur landlækni.

Á blæðingum í 53 daga

Sjálf var Rebekka á blæðingum í 53 daga í kjölfar bólusetningar. Hún byrjaði á blæðingum daginn eftir bólusetninguna og samhliða því fékk hún mikla verki í móðurlífið, brjóstaspennu og þreytu. Þrátt fyrir að blæðingarnar hafi stöðvast fyrir um þremur dögum glímir hún enn við mikla túrverki og þreytu.

Aðrar konur í hópnum eru að ganga í gegnum það sama. „Sumar eru að upplifa það sama og ég, aðrar hafa ekki farið á blæðingar í allt að fimm mánuði. Sumar konur hafa verið á breytingaskeiði í mörg ár og ekki farið á blæðingar en eru farnar aftur á blæðingar núna. Flestar ef ekki allar eru með brjóstaspennu og þessar miklu kvalir í móðurlífi,“ segir Rebekka.

Hún segir konur í hópnum hafa leitað ráða hjá læknum og hjúkrunarfræðingum en enginn geti svarað því hvað orsaki þetta né hvort og þá hvaða áhrif þetta gæti haft.

„Nú teljum við yfir 600 konur á nokkrum dögum, það brennur á okkur að vita hvaða langtímaáhrif gæti þetta haft á okkar æxlunarfæri,“ segir Rebekka. „Við höfum líka áhyggjur af þeirri umræðu að nú eigi að bólusetja ungt fólk niður í tólf ára gamalt, stúlkur með óþroskuð æxlunarfæri. Hvaða áhrif hefur þetta á þær?“

Ekki á móti bólusetningum

Hún tekur skýrt fram að hún sé ekki á móti bólusetningum, enda fullbólusett sjálf. Þá hafi hún fylgt öllum sóttvarnareglum og aðrar konur í hópnum séu á sömu blaðsíðu.

„Það eina sem við viljum er að vita hvað er að gerast. Verðum við ófrjóar? Það vitum við ekki. Það getur enginn svarað þessu. Það eru mjög margar konur hræddar og vita ekkert hvert þær eiga að snúa sér.“

Langtímaáhrif ólíkleg

Ásgeir Thoroddsen kvensjúkdómalæknir staðfestir að margar konur hafi lýst þeim einkennum sem Rebekka vísar til. Hann segir að raunverulega sé ekki vitað hver ástæða þessa sé né hvort að þetta hafi einhver langtímaáhrif, svo sem á frjósemi. Líklegasta skýringin á breytingunum á tíðahring kvenna í kjölfar bólusetningar sé sú að bólusetning hafi einfaldlega margþætt áhrif á líkamann og geti þar með haft áhrif á tíðahring kvenna.

Einkenni þeirra kvenna sem hafi leitað til hans hafi verið tímabundin og tíðahringurinn komist aftur í eðlilegt horf eftir einhvern tíma.

„Ég hef svo sem ekki áhyggjur af þessu til lengri tíma, það er langlíklegast að tíðahringurinn jafni sig hjá flestum konum þegar lengra líður á,“ segir hann.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, segir embættið hafa frétt af þessum hugsanlegu aukaverkunum. Þá segir hún að áhugi sé á Norðurlöndunum fyrir því að skoða þetta betur. Hún gat ekki svarað því hvort breytingar á tíðahring í kjölfar bólusetninga gætu haft áhrif til lengri tíma.

Alls 270 tilkynningar

Lyfjastofnun hafa borist alls 270 tilkynningar sem varða röskun á tíðahring í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19.

Tilkynningar snúa að samtals þrettán einstökum einkennum. Þar á meðal eru miklar blæðingar, sársaukafullar tíðir vegna samdráttar í legi, óeðlileg lengd á milli tíðablæðinga, fyrirtíðaspenna og skortur eða stöðvun á tíðablæðingum.

Tekið skal fram að ekki er vitað hvort orsakasamhengi sé á milli bólusetningar og tilkynntra tilvika.

Í skriflegu svari Lyfjastofnunar til Morgunblaðsins segir að allar tilkynntar aukaverkanir séu teknar alvarlega og þeim miðlað áfram í evrópskan gagnagrunn.

Lyfjastofnun skoði nú hvort framkvæmanlegt sé að gera sérstaka rannsókn á tilkynntum tilfellum á Íslandi um röskun á tíðahring í tengslum við bólusetningu gegn Covid-19.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert