Janssen verst, AstraZeneca litlu skárra

„Það sem mér finnst líka merkilegt þegar við förum að …
„Það sem mér finnst líka merkilegt þegar við förum að rýna í gögnin nánar, og við erum byrjuð að gera það niðri í Vatnsmýrinni, að þessi bóluefni verja mjög mismunandi vel gegn því að menn greinist með smit,“ sagði Kári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bóluefnið Janssen er með verstu vörnina gegn smiti af völdum kórónuveirunnar, þar á eftir kemur AstraZeneca, síðan Pfizer og loks Moderna.

Þetta kom fram í viðtali Björns Inga Hrafns­son­ar, rit­stjóra Vilj­ans við Þórólf og Kára Stef­áns­son sem birt var á Face­book-síðu hans í kvöld en þetta kemur fram í gögnum sem Íslensk erfðagreining vinnur með nú að sögn þeirra.

Afar mismunandi vörn gegn veirunni

„Það sem mér finnst líka merkilegt þegar við förum að rýna í gögnin nánar, og við erum byrjuð að gera það niðri í Vatnsmýrinni, að þessi bóluefni verja mjög mismunandi vel gegn því að menn greinist með smit. Ein bólusetning með Janssen er verst, AstraZeneca-bóluefnið er litlu betra, en samt betra. Pfizer og Moderna eru mun betri en hin tvö og Moderna virðist vera ívið betra heldur en Pfizer,“ sagði Kári og minnti á að gögnin miði að líkunum á því að greinast með smit og þar gætu ýmsar blendnibreytur spilað inn.

„Nú erum við að greina fólk langoftast eftir einkennasmitun þannig að það má vel vera að við séum í raun ekki að sjá mun á vörn gegn smiti heldur séum við að sjá muninn á því hversu oft þetta fólk er að smitast, fær einkenni og er sent í skimun,“ sagði Kári.

Kári sagði því næst að við þyrftum að fara að horfa að veiruna sem langtímavandamál.

„Við komumst líklega ekki hjá því að fá hverja bylgjuna á fætur annarri.

Þegar Þórólfur var að taka ákvarðanir hér áður fyrr, fyrir bólusetningu, þá var hann náttúrulega eins og við hin að vonast eftir því að bólusetningin myndi leiða til hjarðónæmis og við myndum losna við þetta,“ sagði Kári.

Svo sé hins vegar ekki.

„Ég held að markmiðið hljóti að vera að bæla hverja bylgju svo að engin ein þeirra drekki heilbrigðiskerfinu.“ Þar sé mikilvægast að horfa á spítalann og getu hans til að bregðast við.

Áttfaldar líkur á að leggjast inn á gjörgæslu

Þórólfur tók í sama streng og staðfesti að Janssen væri með minnstu vörnina, Astra Zeneca þar á eftir og Pfizer og Moderna veittu svipaða og töluvert betri vörn.

Hann undirstrikaði þó mikilvægi bólusetningar. „Mér sýnist þetta vera þannig að líkurnar á því að óbólusettur smitist séu um það bil þrefalt hærri hjá óbólusettum heldur en hjá bólusettum,“ sagði Þórólfur. Sömuleiðis séu líkurnar áttfaldar á að leggjast inn á gjörgæslu sé maður óbólusettur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert