Bílastæðakort hækka úr 8.000 í 30.000

Kortin hækka úr 8.000 í 30.000 en 15.000 fyrir þá …
Kortin hækka úr 8.000 í 30.000 en 15.000 fyrir þá sem aka um á hreinum rafmagns- og vetnisbílum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bílastæðakort í Reykjavíkurborg hækka úr 8.000 krónum í 30.000 krónur á ári en 15.000 krónur árlega fyrir þá sem aka á hreinum rafmagns- og vetnisbílum. Borgarráð samþykkti breytingu á gjaldi bílastæðakorta í gær.

Mánaðargjald fyrir bílastæðakortin verður 2.500 kr. en 1.250 kr fyrir þá sem aka á hreinum rafmagns- og vetnisbílum. Pawel Bartozek, formaður skipulagsráðs, segir að regluverki hafi verið breytt svo fleiri hafi nú rétt á bílastæðakortum en hann skilur að hækkunin veki umtal.

„Ólíkir hvatar geta haft ólík áhrif á fólk“

Er ekki hætt við því að þessi hækkun bitni mest á fjölskyldufólki sem ekki hefur ráð á að fjárfesta í rafmagns- og vetnisbílum?

„Ef þessi rök verða tekin gild þá getum við aldrei beitt hagrænum hvötum til þess að fá fólk til þess að skipta um lifnaðarhætti. Ólíkir hvatar geta haft ólík áhrif á fólk eftir efnahag en við teljum að þetta sé í fyrsta lagi ekki óhóflegt og í öðru lagi þá styð ég við það að hagrænum hvötum sé beitt til þess að hvetja fólk til þess að vera umhverfisvænt,“ segir Pawel. 

Pawel Bartoszek, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.
Pawel Bartoszek, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stendur til að hækka gjald í stöðumæla?

„Það hefur ekki verið ákveðið, það er ekki hluti af endurskoðun þessarar gjaldskrár.“

„Við erum hins vegar búin að einfalda regluverkið í kringum íbúakortin svo hópurinn sem hefur rétt á íbúakortum hefur stækkað töluvert,“ segir Pawel. Þá segir hann að hreinum rafmagns- og vetnisbílum muni fjölga mikið á næstunni: „Svona hvatar leiða til þess.“

Fjölskyldur geti ekki treyst á Strætó sem áreiðanlegan kost

Sanna Magdalena, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, veltir því fyrir sér hvort þetta sé besta leiðin til að ná markmiðum um grænni borg: „Ég tel gríðarlega mikilvægt að grípa til aðgerðar vegna loftlagskrísunnar sem við erum í núna en aðgerðirnar mega aldrei vera þannig að þær bitni mest á þeim sem geta síst borið þær,“ segir hún. Margir þurfi að nota einkabíl til þess að koma sér frá einum stað til annars. 

Sanna Magdalena Mörtudóttur, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands.
Sanna Magdalena Mörtudóttur, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

„Við viljum náttúrulega lifa í grænni borg og til þess þurfum við að tryggja að fólk geti treyst á góðar samgöngur. Staðan er einfaldlega þannig núna að ef við skoðum til dæmis Strætó, þá er það einfaldlega þannig að margt fólk og fjölskyldur geta ekki treyst á það sem áreiðanlegan kost og eru í þeirri stöðu að þurfa að vera með bíl, þótt það sé síðri kostur,“ segir hún. Þótt rafhlaupahjólin séu góð viðbót sé ekki hlaupið að því fyrir fjölskyldufólk að nota slíkan ferðamáta, til dæmis þegar sækja á börn á leikskólann. 

Gjaldtakan styðji við betri loftgæði

Á vef Reykjavíkurborgar segir frá gjaldskrárbreytingunni og tekið fram að eftir sem áður verði gjald fyrir íbúakort í Reykjavík töluvert lægri en verð sambærilegra korta á Norðurlöndunum.

„Kortið veitir íbúum heimild til að leggja bifreið án endurgjalds í gjaldskylda stöðureiti innan gildissvæðis íbúakorts, þ.e. nálægt búsetu korthafa. Gjaldtaka í hverjum mánuði eykur sveigjanleika fyrir íbúa. Þá styðja grænir hvatar í gjaldskrá íbúakorta við betri loftgæði og áherslur borgarinnar í loftslagsmálum,“ segir þar einnig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert