Þykir ekki lengur spennandi að sinna Covid-sjúkum

Sjúklingar sem liggja inni á á covid göngudeildinni og á …
Sjúklingar sem liggja inni á á covid göngudeildinni og á gjörgæslu krefjast um tvöfalt meiri mannskaps en hefðbundnir sjúklingar. Ljósmynd/Landspítalinn

Mönnunarvandinn sem Landspítalinn stendur nú frammi fyrir og hefur gert lengi gæti versnað til muna náist ekki almennileg tök á kórónuveirufaraldrinum hér á landi á næsta árinu. Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar spítalans, í samtali við mbl.is.

Covid-sjúklingar þurfi tvöfalt meiri mannskap

Sjúklingar sem liggi inni á á Covid-göngudeildinni og á gjörgæslu krefjist um tvöfalt meiri mannskaps en hefðbundnir sjúklingar. Það sé bæði vegna þeirrar flóknu umönnunar sem sjúklingarnir þarfnast og vegna þess hve krefjandi vinnuaðstæðurnar eru fyrir heilbrigðisstarfsfólkið sem sinnir þessum sjúklingum.

„Í venjulegu árferði erum við til dæmis með um 42 starfsmenn á A7 deildinni en mönnunin þar fer núna upp í um 74. Það er í rauninni bara vegna þess að starfsfólkið getur ekki sinnt þessu fólki til baks og kviðar í þessum mikla hita í lengur en kannski klukkustund í senn. Bara það er margföldun upp á 1,8.“

Til að verja starfsemina hafi mikið af starfsfólki spítalans ýmist verið sent á Covid-göngudeildina, sett í úthringingar eða látið sinna annarskonar verkefnum tengd faraldrinum, að sögn Más.

„Þá er það fólk ekki nýtt í annað á meðan. Það er bara að reyna vinna vinnuna sína en þegar það hefur komið upp eitthvað verkfall hjá því þá getur það farið í úthringingar. Við höfum reynt að aðlaga okkur eins og við getum.“

Mikið álag hefur verið á Landspítalanum síðastliðin tvö ár vegna …
Mikið álag hefur verið á Landspítalanum síðastliðin tvö ár vegna kórónuveirunnar. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

4.000 starfsmenn fari í gegnum spítalann á dag

Um fjögur þúsund starfsmenn fari í gegnum spítalann á hverjum degi og því sé erfitt að koma í veg fyrir að smit læðist inn á spítalann með þeim. Smit sem greinist innan veggja spítalans geti svo haft gríðarleg áhrif á starfsemina þar sem smitið kemur upp hverju sinni.

„Á hverjum einasta degi erum við með rakningartilvik, þ.e.a.s. það kemur smitaður starfsmaður, aðstandandi eða sjúklingur inn sem greinist svo inni á spítalanum. Ef um er að ræða starfsmanna þá geta þeir hafa farið á milli starfshreyfinga, sumir sjúklingar eiga við hegðunarvandamál að stríða, þ.e.a.s. fara víða og hegða sér illa, svo eru sjúklingar sem hafa farið í skurðaðgerð, á vöknun eða í tölvusneið mynd o.s.frv. Þannig þetta geta verið flóknir atburðir sem setja marga í sóttkví,“ segir Már.

„Þetta er náttúrulega bara fólk sem er úti í samfélaginu og allir tengjast einhverjum, maka, börnum, foreldrum o.s.frv. Svo eru mörg hundruð sjúklingar sem koma á bráðamóttökuna og göngudeildina á hverjum degi. Þannig á hverri viku eru að pumpast hérna inn samskipti við næstum 100 þúsund manns. Þannig allt þetta er að gera þetta okkur mjög erfitt fyrir.“

Mikið hefur mætt á starfsfólki Landspítalans í kórónuveirufaraldrinum síðastliðin tvö …
Mikið hefur mætt á starfsfólki Landspítalans í kórónuveirufaraldrinum síðastliðin tvö ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það vilja engir nemar koma inn lengur“

Þá segir hann þreytu farið að gæta hjá því starfsfólki sem sinnt hefur Covid-sjúklingum fram að þessu og að áhyggjur séu uppi um að ekki náist að manna deildirnar þar sem þeir sjúklingar leggjast inn fari ástandið ekki að skána.

„Þetta þótti rosalega spennandi í byrjun en núna tveimur árum síðar er þetta bara orðið þreytt. Það vilja engir nemar koma inn lengur því þetta þykir ekkert spennandi lengur. Við höfum reynt að gera það sem við getum en það er ennþá fólk sem hefur ekki komist í sumarfrí og þarf að komast í frí. Segjum að þetta verði svona í eitt ár í viðbót þá getum við lent í langtíma mönnunarvandræðum umfram þann mönnunarvanda sem við erum nú þegar í. Þannig það er veruleg áskorun bara að lifa þetta af.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka