Bólusetningin færist úr höllinni

Bólusetning við Covid-19 mun fara fram annars staðar en í …
Bólusetning við Covid-19 mun fara fram annars staðar en í höllinni þegar framkvæmdir hefjast. Óvíst er með staðsetningu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bólusetning gegn Covid-19, sem hingað til hefur að mestu leyti farið fram í Laugardalshöll, verður færð á annan stað eftir áramót. Er þetta vegna framkvæmda sem eru fyrirhugaðar í höllinni en fyrir liggur að setja þarf nýtt gólf og nýjan ljósabúnað í salinn, sem orðinn er borgarbúum vel kunnur.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir óákveðið hvenær bólusetningarnar verða færðar í annað húsnæði en það fari eftir því hvenær framkvæmdir fari í gang. „Við verðum í anddyrinu í höllinni núna fram að áramótum. Við förum ekki inn í salinn vegna þess að það eru ekki margir að koma en svona verður þetta fram að áramótum,“ segir hún. Ekki hefur verið ákveðið hvar bólusetningarnar munu fara fram þegar framkvæmdir hefjast.

Húsið verður opið næstu vikuna á milli kl. 10 og 15 en frá 10 til 12 á milli jóla og nýárs. Lokað verður 17. desember vegna tónleika í höllinni.

Hvernig hefur mætingin verið í örvunarbólusetningu hingað til?

„Ég er ekki alveg með þær tölur á hreinu en tilfinningin er þokkalega góð. Það eru náttúrlega margir búnir að fá Covid núna og síðan eru stórir hópar sem á eftir að boða,“ segir hún. Almennt eiga sex mánuðir að líða á milli síðari skammts og örvunarbólusetningar en þrír mánuðir nægja hjá fólki yfir sjötugu.

Samkvæmt tölfræði á vefnum covid.is hefur 135.891 einstaklingur fengið örvunarskammt en alls eru 282.199 fullbólusettir, þ.e. búnir að fá tvo skammta. Þeir sem voru boðaðir í seinni bólusetningu 7. júlí og fyrr hafa nú fengið boð í örvunarbólusetningu að sögn Ragnheiðar. Nú fari síðan mesta púðrið í að útfæra hvernig bólusetningu sex til 11 ára barna skuli háttað, fari hún á annað borð fram.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert