Landrisið er beintengt afkomu jökla

Landris umhverfis Vatnajökul frá 2015 mælist á sumum stöðum nærri …
Landris umhverfis Vatnajökul frá 2015 mælist á sumum stöðum nærri 20 cm eins og rauði liturinn á kortinu sýnir. Á Reykjanesi seig jörð á tímabili, en eftir eldgosið þar í fyrra hefur sú þróun snúist við.

Nýjar tölur Landmælinga Íslands, LMI, sýna að land við sporð Síðujökuls, sem er á SV-horni Vatnajökuls, hefur frá árinu 2015 risið um nærri 20 sentimetra. Svipað hefur gerst við Skeiðarárjökul, Skaftafell og í Öræfasveit þar sem jöklar hafa verið á stífu undanhaldi síðustu ár. Staðfestar mælingar sýna 18 cm landris á þessum slóðum frá 2015-2020, en tölurnar voru reiknaðar út í fyrra. Miðað við þróunina þykir óhætt að bæta litlu einu við og þá eru 20 cm nær lagi. Vegna minna jökulfargs hefur land einnig risið annars staðar nærri Vatnajökli norðanverðum, svo sem við Hálslón og Dyngjujökul.

Reykjanesskagi rís í dag

Árið 2021 létu LMI vinna ný INSAR-kort af Íslandi sem sýna hæðarbreytingar á landinu fyrir tímabilið 2015-2020. Kortin eru unnin út frá gögnum úr Sentiel-1 gervitunglum sem eru í útgerð skv. Copernicus, áætlun ESB sem Ísland á aðild að. Einungis er notast við sumargögn svo snjór trufli niðurstöðurnar sem minnst. Sambærileg kort hafa verið unnin áður af Jarðvísindastofnun HÍ, það var fyrir tímabilið 2015-2018.

Upp af Sandvík suður við Reykjanestá mætast jarðflekar NorðurAmeríku og …
Upp af Sandvík suður við Reykjanestá mætast jarðflekar NorðurAmeríku og Evrasíu. Brúin góða er yfir bil sem breikkar lítið eitt. mbl.is/Sigurður Bogi

Á kortinu fyrir hæðarbreytingar má sjá greinilegt landris með hámark við Vatnajökul sem stafaði af bráðnun á jöklum landsins. Þá má einnig sjá töluvert landsig, um 10-12 cm, nærri Reykjanestá og Svartsengi á Suðurnesjum sem átti sér stað frá 2015-2019. Inntak vatns úr iðrum jarðar sem notað er til orkuframleiðslu er talin skýring sigs þar. Þegar kom svo fram á árið 2020 fór land á Reykjanesskaganum að rísa, sem aftur var upptaktur að eldgosinu í Geldingadölum, sem stóð lungann úr síðasta ári. Mælingar sýna sömuleiðis landris við ýmsar aðrar eldstöðvar landsins. „Landrisið virðist beintengt afkomu jöklanna. Einnig verða mælingar sífellt nákvæmari,“ segir Guðmundur Valsson, fagstjóri hjá LMI.

Gliðnun mest við Hornafjörð

Gögn Sentiel-1 sýna sömuleiðis skil jarðfleka Norður-Ameríku og Evrasíu sem liggja í gegnum Ísland. Þau staðfesta, segir Guðmundur, að gliðnun lands á flekaskilum er að jafnaði um 2 cm á ári, eins og verið hefur lengi. Virðist þó meiri til dæmis í Lóni og við Hornafjörð og þar kann bráðnun jökla að vera áhrifaþáttur. Gosið við Grindavík getur sömuleiðis að hafa hert á landreki þar syðra en óvíða sjást flekaskilin betur en á Reykjanesi. Er þar nærtækt að nefna brú yfir gjá nærri Sandvík, suður undir Reykjanestá. Hin eiginlegu flekaskil eru þó belti sem spannar einhverja kílómetra.

„Landmælingar Íslands hyggja á að vinna og gefa út INSAR-kort af landinu reglulega, enda eru þessu gögn gagnleg við rekstur og vöktun á landmælingakerfum Íslands sem er eitt af lögbundnum hlutverkum stofnunarinnar,“ segir Gunnar H. Kristinsson, forstjóri LMI. Með fjölgun jarðstöðva, sem gjarnan eru á annesjum, fáist góð viðmiðun við ýmsa mælingapunkta. Því megi í raun sjá og fylgjast með náttúrulegum tilfærslum á landinu niður í nokkra millimetra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert