Misskilningur hjá Bjarna og umsögnin vanreifuð

Lilja Alfreðsdóttir menninga- og viðskiptaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir menninga- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja D. Alfreðsdóttir, menninga- og viðskiptaráðherra, segist ekki skilja á hvaða grundvelli athugasemdir Bjarna Benediktssonar, fjármála og efnahagsráðherra, við frumvarpi hennar til hækkunar endurgjalds til kvikmyndagerðar hér á landi byggist. Þá segir hún að það hljóti að vera um misskilning að ræða hjá Bjarna og að frumvarpið ætti ekki að koma ráðuneyti hans á óvart.

Spurð um athugasemdir Bjarna við frumvarpi Lilju um hækkun endurgreiðslna fyrir kvikmyndagerð hér á landi segir Lilja að hún skilji ekki á hverju gagnrýnin byggist þar sem endurgreiðslurnar geti ekki einungis verið metnar sem útgjöld vegna þess að mun meiri tekjur komi inn á móti.

Segir Lilja þá að engar líkur séu á að fjárliðurinn til menningar- og viðskiptaráðuneytisins klárist á þessu ári að völdum endurgreiðslna til kvikmyndagerðar. 

Bjarni sagði í samtali við mbl.is í gær að hann hafi gert athugasemd við frumvarp Lilju og að gagnrýni sín hafi snúist um það hvort að fjárliðurinn sem er vistaður í menningar- og viðskiptaráðuneytinu hafi nægilegt svigrúm til að fullnægja endurgreiðslunum. Að mati Bjarna er enginn vafi um það að fjárlagaliðurinn sé ófullnægjandi.

„Umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins er vanreifuð hvað varðar þjóðhagslegan ávinning sem fæst af sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu á Íslandi,“ segir Lilja og bætir við að það hljóti að vera um einhvern misskilning að ræða hjá Bjarna. 

Endurgreiðslur aldrei að fullu fjármagnaðar

Útskýrir Lilja að endurgreiðslur að þessu tagi séu aldrei að fullu fjármagnaðar, „þetta virkar þannig að þetta fer eftir Því hversu mikið af verkefnum koma inn og þá er gert ráð fyrir ákveðnari fjárhæð í fjárlögum og svo hefur fjáraukinn alltaf komið til móts við það,“ segir Lilja.

Bendir Lilja á að fjáraukinn bæti upp það sem vantar til að mæta útgefnum vilyrðum á hverju ári og nefnir sem dæmi að árið 2020 hafi verið gert ráð fyrir 691 milljónum króna í endurgreiðslu til kvikmyndagerðar í fjárlögum en að raunveruleg útgreiðsla hafi verið 2.369 milljón krónur.

Nefnir Lilja að þetta séu í raun og veru ekki bein útgjöld og bendir á að það komi tekjur af svona starfsemi inn í ríkissjóð. „Það koma beinar skattatekjur, óbein áhrif frá veltu í samfélaginu og svo áhrifin á ferðaþjónustu,“ segir Lilja og bendir á að auknar tekjur berist inn í ríkissjóð út frá starfseminni frekar en útgjöld. Segir Lilja því að það sé ekki hægt að tala um þetta sem bara útgjöld.

Ætti ekki að koma neinum á óvart

Aðspurð segir Lilja að blaðamaður mbl.is þurfi helst að ræða frekar við Bjarna um það af hverju það var ekki gert ráð fyrir endurgreiðslunum í fjárlögunum fyrst að það er samið um þær í stjórnarsáttmálanum. 

„Ég ræddi það að þetta ætti að vera í ríkisfjármálaáætlun, þá var sagt að við setjum þetta ekki inn áður en að frumvarpið verður að lögum. Þannig þetta á ekkert að koma fjármála- og efnahagsráðuneytinu á óvart,“ segir Lilja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert