Skemmta sér yfir fréttum af kuldakastinu fyrir sunnan

Í nótt mældist 18,7 stiga frost í Mývatnssveit.
Í nótt mældist 18,7 stiga frost í Mývatnssveit.

Veður­spár gera ráð fyrir áframhaldandi kuldakasti um helg­ina og að minnsta kosti fram­an af næstu viku.

Í nótt mældist 18,7 stiga frost í Mývatnssveit og segir Jón Hrói Finnsson, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, að þetta mikla frost sé árlegt á þessum slóðum. Hann segir fólk skemmta sér yfir fréttum af kuldakastinu fyrir sunnan enda sé kuldi sem þessi daglegt brauð fyrir þeim.

Jón Hrói gefur lítið fyrir kuldakastið sem hefur verið um allt land og segir fólk á þessu svæði vant kuldanum á þessum árstíma. 

„Mývatnssveit er náttúrulega mjög kalt svæði, þetta er bæði langt uppi og inni í landinu og það verður mjög kalt þar og fólk er bara vant því. Það er hitaveita sem annar svona flestu,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Kuldinn daglegt brauð

Spurður hvort ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að bregðast við þessum kulda segir hann að sér sé ekki kunnugt um slíkt.

„Þetta er daglegt brauð að vetri til og við skemmtum okkur vel yfir fréttunum að sunnan. Það er auðvitað leiðinlegt að það sé ekki nægilega mikið heitt vatn hjá ykkur en okkur finnst þetta ekki mikið mál fyrir okkur ennþá. Það kemur að því að okkar vatn þrýtur líka en það er ekki þannig sem stendur.“

Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.
Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri. Morgunblaðið/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert