Fólk pirrað við vegartálma

„Við stýrum ekki lokuninni en mönnum bara lokunarpósta að beiðni Vegagerðar og lögreglu og það hefur aðeins borið á því að fólk hafi verið að pirra sig á því að björgunarsveitir séu að hindra för þess,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is nú í morgunsárið um verkefni næturinnar og gærkvöldsins.

Hann segir nóttina hafa verið rólegri en gærdaginn og dregið úr mesta viðbragðinu eftir því sem á leið. „En það voru þó nokkur verkefni, bæði í efri byggðum Reykjavíkur, Mosfellsbæ og Kollafirði, þar voru nokkrir einstaklingar á bílum sem þurftu aðstoð,“ segir Jón Þór enn fremur og segir langflest verkefnin hafa snúist um að losa ökutæki fólks.

Björgunarsveitarfólk hafði í nógu að snúast í gær en eftir …
Björgunarsveitarfólk hafði í nógu að snúast í gær en eftir því sem leið á nóttina dró úr annríkinu og voru flestir komnir í hvíld um fjögurleytið að sögn Jóns Þórs Víglundssonar upplýsingafulltrúa. Ljósmynd/Landsbjörg

Verkefni á Suðurnesjum líklega hátt í þúsund

Þá noti björgunarsveitarfólk vel búna jeppa til að draga bíla upp úr sköflum. „Annaðhvort er reynt að losa bílinn eða, ef það er illgerlegt, þá er fólk flutt í skjól, það er svona almennt verklagið,“ segir hann.

Af Suðurnesjum sé sömu sögu að segja, hægt og rólega hafi dregið úr verkefnum þegar á nóttina leið. Lögregla taki tímabundið við að manna tálma þar sem vegum hefur verið lokað en að sögn upplýsingafulltrúans er það gjarnan bara á meðan verið er að senda björgunarsveitarfólk á staðinn.

Mikið var um aðstoð við ökumenn í gær, einkum í …
Mikið var um aðstoð við ökumenn í gær, einkum í efri byggðum Reykjavíkur, Mosfellsbæ og Kollafirði. Ljósmynd/Landsbjörg

Hann kveður á sjötta hundrað verkefna hafa verið bókuð á Suðurnesjum síðan í gærmorgun. „En ég ætla að leyfa mér að segja að ekki öll verkefni hafi verið bókuð, þegar björgunarsveitarfólk er á leiðinni í útkall kemur það oft að fólki sem þarf aðstoð og bregst þá við því á leið í skráða verkefnið,“ segir Jón Þór og telur verkefnin í raun hátt í þúsund.

Sjúkrabifreið fylgt til Sandgerðis

Flestir hafi verið að fara í hvíld um fjögur í nótt en einhverjir snjóbílar séu á ferðinni. Jón Þór segir illfært hafa verið milli byggðarkjarna, til dæmis hafi snjóbíll með tönn verið reiðubúinn á Suðurnesjum til aðstoðar slökkviliði og sjúkraflutningafólki og sá hafi ekið á undan sjúkrabifreið í útkall í Sandgerði í gærkvöldi.

Einhverjar flugkomur hafa verið í Keflavík í morgun og segir Jón Þór björgunarsveitarfólk aðstoða við að koma farþegum leiðar sinnar berist beiðnir þar um en annars séu það Isavia og Vegagerðin sem beri hitann og þungann af þeim flutningum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert