Svindlarar reyna að komast yfir rafræn skilríki

Varað er við vefveiðum (e. pishing) í gegnum smáskilaboð.
Varað er við vefveiðum (e. pishing) í gegnum smáskilaboð. AFP

CERT-IS hefur varað við vefveiðum (e. pishing) í gegnum smáskilaboð sem hafa færst í aukana undanfarnar vikur.

Svindlið fer þannig fram að viðtakandinn fær SMS skilaboð sem líta út fyrir að vera frá þekktum innlendum þjónustuaðila um að bregðast þurfi við einhverju í flýti. Skilaboðunum fylgir hlekkur sem viðtakandinn verður að smella á til að bregðast við, að því er kemur fram í tilkynningu, en CERT-IS gegnir hlutverki landsbundins öryggis- og viðbragðsteymis vegna ógna, atvika og áhættu er varðar net- og upplýsingaöryggi.

Þegar smellt er á hlekkinn opnast svikasíða sem er nánast fullkomið afrit af síðum þekktra þjónustuaðila. Þar er fólk beðið um ýmsar upplýsingar, oft kortaupplýsingar og símanúmer. 

AFP

Rafræn skilyrði nýmæli

„Það eru nýmæli í þessum svikaherferðum að verið er að veiða eftir rafrænum skilríkjum. Fyrst með því að biðja um símanúmer og seinna í ferlinu er viðtakandinn beðið um að staðfesta beiðni með rafrænum skilríkjum í eigin síma. Á sama tíma er árásaraðilinn að senda beiðni um innskráningu inn í heimabanka og með staðfestingu á rafrænum skilríkjum er árásaraðilinn kominn inn í heimabanka viðtakandans,“ segir í tilkynningunni.

Bent er á svindlarinn getur í kjölfarið millifært stórar upphæðir af heimabankanum á skömmum tíma og notfært sér kreditkort einstaklingsins.

„Um er að ræða vel skipulagðar og fágaðar herferðir sem notast við trúverðugar aðferðir til þess að lokka fólk til að samþykkja rafræn skilríki. Ekki er unnt að útiloka að fleiri slíkar svikaherferðir munu herja á íslenskt netumdæmi á komandi vikum. CERT-IS hefur átt í góðu samstarfi við hagsmunaaðila og fjarskiptafélög um að bregðast hratt og vel við þegar slíkar svikaherferðir fara af stað til að koma í veg fyrir útbreiðslu og lágmarka skaða,“ segir einnig í tilkynningunni þar sem fólk er hvatt til að vera á varðbergi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert