Þingbóndinn farinn í sauðburðarfrí

Þórarinn Ingi með fyrstu lömb vorsins. Annatími er fram undan …
Þórarinn Ingi með fyrstu lömb vorsins. Annatími er fram undan í sveitinni og varamaður kallaður á þing. mbl.is//Sigurður Bogi

„Vorverkin eru skemmtileg,“ segir Þórarinn Ingi Pétursson þingmaður Framsóknarflokks. Nú í lok vikunnar fór hann í þriggja vikna leyfi frá þingstörfum til þess að sinna búverkum. Þórarinn og Hólmfríður Björnsdóttir eiginkona hans búa á bænum Grund í Grýtubakkahreppi, skammt frá Grenivík, og eru þar með stórt fjárbú.

Nú er komið að sauðburði sem fylgir mikil vinna og langar vökur. Komnar eru að burði alls um 600 ær og vænta má að lömbin sem marka þarf verði um 1.000. Það verður annasamt við bústörfin á Grund og því kallaði Þórarinn inn fyrir sig varamann á þingi. Sá er Helgi Héðinsson úr Mývatnssveit, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins.

Tilhleypingar í desember og nú fæðingarorlof

„Já, þetta er allt að fara á fullt núna um helgina. Ég hleypti hrútunum til hinn 7. desember þannig að sauðburðurinn hæfist í byrjun maí. Í þessu öllu tók ég líka mið af starfsáætlun Alþingis þannig að ég kæmist í sauðburðarorlof, sem aðrir kalla fæðingarorlof,“ segir Þórarinn glettinn á svip. Fimm ær voru bornar þegar blaðamaður kom við á Grund fyrir nokkrum dögum. Þá var bóndinn að undirbúa sauðburðartörnina, sem kallar á að sólarhringsvakt verði staðin í fjárhúsinu svo lengi sem þarf.

„Hér á bæ fáum við hjálparfólk næstu vikurnar. Verðum að minnsta kosti fjögur í verkunum meðan á sauðburði stendur og einnig hlaupa vinir og fjölskylda undir bagga þegar mest er að gerast,“ segir bóndinn á Grund. „Sjálfur er ég á vaktinni í fjárhúsinu frá klukkan sex á morgnana og fram til miðnættis. Þetta er tími sem ég hlakka alltaf til; fátt veit ég ljúfara en fara fyrir allar aldir út í fallegan vormorguninn og til verka í fjárhúsinu. Þetta er góður tími, nema hvað oft er ansi kalt framan eftir maí og stundum föl á jörðu eftir nóttina. Við vonum samt að nú fari í hönd góðir dagar og að hlýtt verði í veðri.“

Ítarlegt viðtal má lesa í Morgunblaðinu í dag.

Mektarbýlið Grund við Eyjafjörðinn þar sem Þórarinn og fjölskylda bú.
Mektarbýlið Grund við Eyjafjörðinn þar sem Þórarinn og fjölskylda bú. mbl.is/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert