Úrkoma setti strik í reikninginn á allsherjarmótmælum

Úrhellisrigning gerði mótmælendum á Austurvelli lífið leitt í gær.
Úrhellisrigning gerði mótmælendum á Austurvelli lífið leitt í gær. Ljósmynd/Aðsend

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og einn forsprakki mótmælanna Rísum upp, segir mætingu á fyrstu mótmæli í hrinunni hafa verið með ágætum þó veðrið hefði mátt vera betra.

Ríflega tólfhundurð manns höfðu merkt sig áhugasama á Facebook-síðu mótmælanna sem voru á laugardag en um fjórðungur þeirra var á staðnum þegar mest lét.

Það geti tekið tíma að byggja upp stemningu

„Eins og við þekkjum sem höfum lengi verið í þessari baráttu tekur tíma að byggja upp stemningu en þetta var bara upphafið,“ segir Ragnar sem boðar fleiri mótmæli undir sömu formerkjum.

„Það er alveg ljóst að það er stór hópur sem er enn með fasta vexti sem losna í haust og stærsti staflinn á næsta ári og ljóst að risastór hópur sem mun lenda í gríðarlegum vandræðum. Fólk sem er á leigumarkaði fyrir með stökkbreytt húsnæðismál og er að lenda í húsnæðisvanda.“ 

Ekki á vegum VR 

Mótmælaröðin tengist verkalýðshreyfingunni ekki á nokkurn hátt en Ragnar segir aðstandendur mótmælanna vera fjóra. Það eru hann sjálfur, Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda.

Aðspurður segir Ragnar þau fjögur greiða kostnað við tækjabúnað og auglýsingar sjálf auk þess að taka við frjálsum framlögum.

„Þetta er í okkar nafni og okkar reikning, stöndum undir þessu sjálf“.

Fjölþætt mótmæli

Mótmælunum var beint að hagnaði banka og stórfyrirtækja, kerfisbundið niðurrif grunnstoða samfélagsins, aðgerðarleysi stjórnvalda, stýrivaxtahækkunum Seðlabankans auk stöðunnar á húsnæðismarkaði og í heilbrigðiskerfinu. „Eða hefur þú fengið nóg af einhverju öðru sem betur má fara í okkar samfélagi?“ segir ennfremur á Facebook-síðu mótmælanna.

Ragnar segir von á fleiri fundarboðum undir sömu formerkjum á næstunni.

„Já við munum halda áfram, þetta er bara byrjunin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert