„Ég er ekki sammála Sjálfstæðisflokknum“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- vinnumarkaðsráðherra, kveðst ekki deila skoðunum á stöðu útlendingamála með ráðherrum og þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal Jóni Gunnarssyni, fyrrverandi dómsmálaráðherra.

Hann telur að Guðrún Hafsteinsdóttir, nýr dómsmálaráðherra, þurfi að fjölga starfsmönnum til þess að vinna á stafla umsókna eftir alþjóðlegri vernd sem hafi myndast undanfarna mánuði.

„Ég er ekki sammála Sjálfstæðisflokknum í nærri því öllu sem við kemur útlendingamálum. Ég held að við séum kannski ágætlega sammála um það að fólk sem hingað kemur og fær vernd eða kemur sem innflytjendur, að við þurfum að taka mjög vel utan um að það fólk nái að aðlagast samfélaginu. Ég held að við deilum kannski ekki mikið um það. 

En okkur greinir á að mörgu leyti þegar kemur að þeim sem hér sækja um alþjóðlega vernd, hælisleitendur. Þar hefur orðið mikil aukning hér á síðustu tveimur árum. Auðvitað er stór hluti af því - um helmingur vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Mér finnst það stundum gleymast í þessari umræðu. Ég hef ekki heyrt neinn lyfta hönd upp á móti því. Heldur þvert á móti,“ segir Guðmundur Ingi en tekur þó fram að vissulega komi einnig stór hópur frá öðrum löndum og nefnir þá sérstaklega Venesúela. 

Ná ekki að vinna nógu hratt úr umsóknunum

Telur Guðmundur vandann m.a. felast í skorti á starfsfólki til að fara í gegnum umsóknirnar.

„Við erum með kerfi sem á að meta það hver fá hér vernd og hver ekki. Ég myndi segja að kannski hluti af vandamálinu núna er ekki síst það að við erum ekki – eða dómsmálaráðuneytið og þær stofnanir sem heyra undir það, þar með talið Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála, eru ekki að ná að vinna nægjanlega hratt úr þeim umsóknum um alþjóðlega vernd sem að þeim berast.“

Hann tekur fram að Vinnumálastofnun, sem heyrir undir hans ráðuneyti, sé með sífellt fleira fólk sem fari ekki úr húsnæði stofnunarinnar vegna biðar eftir svörum um hvort þau fái hæli eður ei.

„Þetta finnst mér vera mjög stór áskorun akkúrat núna.“

Bindur hann vonir við að nýr dómsmálaráðherra muni bæta við þann mannafla sem hann telur að þurfi til þess að fara í gegnum þær umsóknir sem liggja fyrir „og vinna á staflanum sem hefur safnast upp á undanförnum mánuðum“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert