Engin leið að sjá þróun mála fyrir

Utanríkisráðherra segir vandasamt að spá um þróunina í Rússlandi miðað …
Utanríkisráðherra segir vandasamt að spá um þróunina í Rússlandi miðað við atburðarás síðasta sólarhrings. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

„Það er auðvitað margt sem fer um hugann og gríðarlega mikið magn af upplýsingum sem maður fer í gegnum en á sama tíma lítið sem ég get sagt,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is um framvindu mála í Rússlandi.

„Aðrir eru kannski í betri stöðu en utanríkisráðherra til að velta upp hinum ýmsu kostum en þarna er greinilega mjög hröð atburðarás, mun hraðari en ég átti von á miðað við það sem maður les. Ég held að fólk hafi almennt ekki gert ráð fyrir að þetta stigmagnaðist svona hratt. Hvað nákvæmlega er að gerast og með atbeina hverra og hvernig hlutirnir munu þróast veit enginn,“ segir ráðherra.

Í stöðugu sambandi

Í ástandi á borð við þetta kveður hún stríðsþokuna töluverða. „Maður þarf að taka öllu með ákveðnum fyrirvara. En ég get sagt þér það að við fylgjumst mjög náið með, við erum í miklu samtali milli samstarfsfólks, milli ráðuneyta og milli sendiráða í Moskvu,“ segir Þórdís.

Segir hún enga leið að sjá fyrir sér hvernig málin þróist eins og staðan er og er því næst spurð út í Íslendinga í Rússlandi. Er sendiráðsstarfsfólk til dæmis öruggt?

„Við erum í stöðugu sambandi við okkar fólk í Moskvu og höfum verið allt frá því í nótt. Þau eru núna í sendiráðinu og það eru fundir í gangi milli ríkja, bæði Norðurlandanna og Evrópusambandsríkja og svo framvegis þar sem við metum stöðuna frá einni klukkustund til þeirrar næstu. Við tökum svo ákvarðanir byggðar á því mati og á því hvað okkar helstu samstarfsþjóðir eru að gera og erum í samfloti með þeim,“ svarar ráðherra.

25 kílómetra frá Hvíta-Rússlandi

Þórdís segir íslenska ríkisborgara í Rússlandi mjög fáa, milli tíu og fimmtán, og fleiri í Pétursborg en Moskvu. „Við höfum komið skilaboðum til þeirra og þegar ákvarðanir verða teknar verður það bara gert í góðra vina hópi ef ég mætti orða það svo,“ segir hún.

Nú styttist í leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Vilníusí júlí, ástandið nú mun væntanlega hafa einhver áhrif á helstu umræðuefni þar?

„Já. Miðað við hvað hefur gerst frá því seint í gærkvöldi getur maður mjög lítið gert sér í hugarlund um hvernig málin standa þegar við mætum á fundinn 10. júlí. Áhrifin sem það getur haft á umræðuefni fundarins, umgjörð og andrúmsloft eru auðvitað einhvern, Vilníus er bara í 25 kílómetra fjarlægð frá Hvíta-Rússlandi og enn minna vitað um hvað er að gerast þar. Það mun auðvitað skýrast á næstu klukkustundum og sólarhringum – en hvernig hlutirnir þróast getur enginn sagt til um,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra að lokum.

Uppfært: Meðan á þessu viðtali stóð tilkynnti Jevgení Prígosjín að hann hefði skipað Wagner-sveitum sínum að halda til baka til herbúða sinna og hætta aðgerðum. Óhætt er þó að segja að ástandið í landinu sé eldfimt eftir það sam Pútín Rússlandsforseti kallar landráð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert