Blár reykur er undantekning

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Akureyrarhafnar og reykurinn blái.
Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Akureyrarhafnar og reykurinn blái. Samsett mynd

Bæjarbúar á Akureyri hafa tekið eftir bláum reyk sem berst úr einu skemmtiferðaskipanna sem nú eru í höfn.

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Akureyrarhafnar, segir í samtali við mbl.is slíkan útblástur algera undantekningu. Það sem af er sumri hafi nú þegar 70-80 skemmtiferðaskip komið til hafnar og blár útblástur fátíður.

Pétur segir almennt að vélar skipa séu nú betri en áður voru. Hann segir mörg eldri skip hafi verið aflögð í heimsfaraldrinum. Hann bendir líka á að í janúar 2021 hafi tekið gildi strangari reglugerð um brennisteinsinnihald olíu.

Þörf á betra eftirliti

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra segir við mbl.is að þau hafi ekki rökstuddan grun um skaðsemi útblásturs skemmtiferðaskipa. Engar mælingar hafi leitt slíkt í ljós. Eftirlitið vildi þó gjarnan hafa betri tæki til umráða til að geta gert nákvæmari mælingar um það.

Engar upplýsingar hafi borist frá Akureyrarbæ um hvernig eftirliti sé háttað, en heilbrigðiseftirlitið telur að gott væri að vera með færanlega mæla, til þess að geta komist nær upptökum útblástursins.

Pétur hafnarstjóri segir Akureyrarhöfn hafa árið 2019 fengið umhverfisverkfræðing til að greina gögn úr mæli sem er staðsettur við menningarhúsið Hof. Hafi hann ekki greint skaðleg efni sem íbúum gæti staðið ógn af. Segir Pétur þetta í takt við sambærilegar mælingar sem Faxaflóahafnir hafa gert og leitt til sömu niðurstöðu.

Orkuskiptin á fleygiferð

Hafnarstjóri segir að orkuskiptin séu á fleygiferð í höfnum landsins. Akureyringar hafa þegar eytt um 300 milljónum í verkefnið og eru tilbúnir að taka við minni skemmtiferðaskipum í rafmagn á einni höfninni. Pétur væntir þess að öðru eins fé verði eytt á næsta ári og verði þá önnur höfn með sömu getu, þannig að þær verði orðnar tvær næsta sumar ef vel gengur.

Pétur segir að mikið sé í húfi fyrir Akureyri, og Norðurland allt, að tryggja farsæla komu skipanna. Hann hafi sjálfur skoðað hvað eitt slíkt skip getur skilað til ferðaþjónustu í landi, af hafnargjöldum og verslun og þjónustu í bæ.

„Eitt stórt skip og komur þess í sumar mun skilja eftir sig um einn milljarð á Norðurlandi með komum sínum til Akureyrar í sumar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert