Stefnir í metár í aðflutningi

Kort/mbl.is

Ríflega 5.500 fleiri erlendir ríkisborgarar fluttu til landsins á fyrri hluta ársins en fluttu þá frá landinu. Það eru um 600 fleiri en á fyrri hluta árs í fyrra, sem var metár í aðflutningi erlendra ríkisborgara til landsins.

Þróunin í búferlaflutningum til og frá landinu frá ársbyrjun 2000 er sýnd á grafinu hér til hliðar.

Innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022 hafði mikil áhrif á aðflutning til landsins í fyrra en þá fluttu hingað tæplega 2.300 fleiri Úkraínumenn en fluttu frá landinu (sjá neðra grafið). Aftur á móti virðist hafa dregið úr aðflutningi Úkraínumanna milli ára. Því vekur athygli að heildarfjöldi innflytjenda á fyrri hluta árs sé meiri en í fyrra.

Margir koma frá Póllandi

Meðal áhrifaþátta er að ríflega 1.600 fleiri Pólverjar fluttu til landsins á fyrri hluta ársins en frá því.

Tölur um aðflutning Úkraínumanna og Pólverja í neðra grafinu hér á síðunni eru sóttar í tilkynningar Hagstofunnar fyrir fyrsta og annan ársfjórðung. Þar koma fram bráðabirgðatölur fyrir brottflutning og aðflutning Pólverja báða fjórðunga. Aftur á móti eru aðeins birtar upplýsingar um aðflutning Úkraínumanna en ekki brottflutning. Fyrir vikið kann nettófjölgun Úkraínumanna á Íslandi á fyrri hluta þessa árs að vera ofmetin á neðra grafinu hér til hliðar.

Kort/mbl.is

Nú ríflega 70 þúsund

Eins og Morgunblaðið hefur reglulega fjallað um á aðflutningur erlendra ríkisborgara stóran þátt í íbúafjölgun á Íslandi á þessari öld.

Samkvæmt Hagstofunni bjuggu 70.540 erlendir ríkisborgarar hér á öðrum ársfjórðungi sem samsvaraði 17,9% af heildarmannfjöldanum. Með sama áframhaldi verður hlutfallið komið í 20% innan árs.

Frá 2000 hafa ríflega 71 þúsund fleiri erlendir ríkisborgarar flutt til landsins en frá því (sjá stærra grafið). Flutningsjöfnuðurinn er aftur á móti neikvæður meðal íslenskra ríkisborgara. Þannig hafa ríflega 11 þúsund fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt frá landinu frá ársbyrjun 2000 en frá því.

Þar af fluttu ríflega 800 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu en til þess árin 2005 til 2008 en mikill hagvöxtur og svo efnahagshrun einkenndu þau ár. Árin 2009 og 2010 varð samdráttur í hagkerfinu og þá fluttu tæplega 4.200 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu en til þess, sem var margföldun frá árunum á undan. Hart var í ári og leituðu margir nýrra tækifæra erlendis, ekki síst í Noregi og Danmörku.

Brottflutningur í hagvexti

Árin 2011 til 2019 var samfelldur hagvöxtur á Íslandi og þá fluttu ríflega 4.300 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu en til þess. Það er álíka fjöldi á níu árum og flutti héðan árin 2009 og 2010. Því virðist hagvöxtur draga úr brottflutningi íslenskra ríkisborgara fremur en að gera flutningsjöfnuðinn jákvæðan. Árið 2017 sker sig úr í þessu efni en þá fluttu ríflega 350 fleiri íslenskir ríkisborgarar til landsins en frá því. Raungengi krónu náði þá hámarki og hagvöxtur var góður.

Spár að rætast?

Endurkoma ferðaþjónustunnar eftir farsóttina og aukin umsvif í byggingariðnaði hafa skapað þörf fyrir erlent vinnuafl. Við það bætist að spár sérfræðinga Vinnumálastofnunar virðast vera að rætast, að fjölskyldur erlendra ríkisborgara sameinist gjarnan þegar fyrirvinnan hefur komið sér fyrir. Enn annar áhrifaþáttur er svo að hælisleitendum hefur fjölgað á síðustu árum. Samkvæmt fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028 er gert ráð fyrir að umsækjendur um alþjóðlega vernd verði um 6.000 á næsta ári, líkt og í ár, en þeir voru um 4.500 í fyrra. Fjallað var um þá spá og áætlaðan kostnað vegna móttöku þessa fólks í Morgunblaðinu 18. maí síðastliðinn. Tekið var fram að ekki væri um hrein nettóútgjöld að ræða fyrir þjóðarbúið en óvissa væri um hin efnahagslegu áhrif aðflutningsins.

Ríflega 10.300 fleiri erlendir ríkisborgarar fluttu til landsins en frá því í fyrra. Flestir komu frá Úkraínu, alls 2.269 einstaklingar, og næst kom Pólland en þaðan fluttust 2.153 fleiri en fluttu þá héðan. Rúmenía var í þriðja sæti en þaðan komu 789 fleiri en fluttu héðan. Skammt á eftir kom Venesúela en þaðan komu 757 fleiri en fluttu héðan. Litáen var í 5. sæti (440), Lettland í 6. sæti (325), Spánn í 7. sæti (283), Portúgal í 8. sæti (270), Palestína í 9. sæti (175) og Þýskaland í 10. sæti (169).

Hærri laun á Íslandi

Laun á Íslandi eru mun hærri en í flestum þessara landa. Þá mælist atvinnuleysi óvíða minna í Evrópu en hér. Þannig mældi Vinnumálastofnun 2,9% atvinnuleysi á Íslandi í júní en til samanburðar var atvinnuleysi 6,4% á evrusvæðinu í júní, samkvæmt Eurostat, hagstofu ESB.

Þess má loks geta að Eurostat vekur athygli á því að 293 þúsund Úkraínumenn voru skráðir atvinnulausir í Evrópu í júní, eða um tvö þúsund færri en í maí sem var metmánuður í því efni.

400 þúsund íbúar í haust?

Aðflutningur erlendra ríkisborgara á mikinn þátt í íbúafjölgun á þessari öld. Landsmenn voru ríflega 279 þúsund í ársbyrjun 2000 en 387.758 í byrjun þessa árs. Það er fjölgun um tæplega 109 þúsund íbúa en á sama tímabili voru aðfluttir erlendir ríkisborgarar umfram brottflutta um 66 þúsund.

Á Íslandi bjuggu 394 þúsund manns í lok annars ársfjórðungs. Haldi aðflutningurinn áfram gætu landsmenn orðið 400 þúsund fyrir áramót í fyrsta skipti í sögu landsins. Hins vegar bendir manntal Hagstofunnar fyrir árið 2021 til að íbúafjöldinn kunni að vera ofmetinn um tíu þúsund manns.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert