„Ég trúi að pabbi sé ósýnilegur“

Ágústa og sonur hennar eru dugleg að spjalla um Óskar.
Ágústa og sonur hennar eru dugleg að spjalla um Óskar.

Skömmu eftir að eiginmaður Ágústu Sverrisdóttur lést úr krabbameini á síðasta ári fékk sonur þeirra bangsa að gjöf sem vinkona hennar saumaði úr nokkrum flíkum sem pabbi hans hafði átt. Ómetanleg gjöf sem hefur mikið tilfinningalegt fyrir þau mæðginin.

Ágústa, sem situr í stjórn Ljónshjarta, samtökum til stuðnings yngra fólki sem misst hefur maka og börnum þeirra, vill endilega að fleiri börn sem hafa misst foreldri fá tækifæri til að eignast slíkan bangsa, sem getur jafnvel hjálpað til við sorgarúrvinnslu.

Fyrir hönd Ljónshjarta hefur hún hrundið af stað verkefninu og er strax komin í samband við hóp af færu saumafólki sem er tilbúið að leggja því lið.

Bangsann fékk sonurinn afhentan á góðgerðarbingói í fyrra.
Bangsann fékk sonurinn afhentan á góðgerðarbingói í fyrra.

„Litli duglegi pjakkurinn minn“

Hún segir eflaust mismunandi hvað fólk vill nýta í svona bangsa, sumir vilji kannski hafa hann alfarið úr skyrtu sem foreldrið var alltaf í á meðan aðrir vilji nota fleiri flíkur eða efnisbúta, eins bangsi sonar hennar er gerður úr.

„Þetta eru mjúkir bolir sem hann hafði átt lengi, alveg frá því strákurinn var ungabarn og lá í fanginu á pabba sínum. Svo valdi ég Minecraft efni, sem tengist því að þeir voru mikið að spila Minecraft saman, þeir voru mikið að byggja Lego saman og spiluðu Super Mario, þannig bangsinn er líka tilvísun í áhugamálin þeirra,“ segir Ágústa í samtali við mbl.is.

„Þetta sem stendur framan á: „Litli duglegi pjakkurinn minn“, þetta er það sem pabbi hans sagði oft við hann. Mér fannst alveg dásamlegt þegar hún stakk upp á því að hún gæti skrifað eitthvað á bangsann.“

Þá er bangsinn klæddur í handprjónaða björgunarsveitapeysu, í anda þeirrar sem tengdamóðir Ágústu prjónaði á son sinn sem var lengi virkur starfi björgunarsveita. Svo er merkið af „Lífið er núna“ húfunni hans aftan á.

Man mikið eftir veikindunum og spítalavistinni

Óskar Gústaf Ingjaldur Ólafsson, eiginmaður Ágústu, greindist með krabbamein í desember 2020 og lést í mars á síðasta ári, 15 mánuðum eftir greiningu.

„Strákurinn var þriggja ára þegar pabbi hans greindist þannig hann man mjög mikið varðandi veikindin og spítalavistina.“

Ágústa segir þó erfitt að átta sig á því hvað eru raunverulegar minningar og hvað kemur upp í hugann þegar myndir eru skoðaðar eða við frásagnir annarra. Það sama eigi við um son hennar. Hún áttar sig ekki á því hvað hann man frá pabba sínum. „Það er því svo góð leið að eiga einhvern svona hlut sem hægt er að grípa í og spjalla um.“

Margir sem vilja leggja verkefninu lið

Ágústa setti færslur inn í nokkra hópa á Facebook þar sem hún kynnti verkefnið og óskaði eftir sjálfboðaliðum til að taka að sér að sauma bangsana og hjálpa til við útfærslu. Viðbrögðin hafa svo sannarlega ekki látið á sér standa. Fjölmargir hafa boðið fram aðstoð sína og Ágústa hefur ekki einu sinni komist í að svara öllum.

Hún segir marga greinilega vilja sauma og prjóna en viti ekki alltaf fyrir hvern. Að taka þátt í svona verkefni geri fólki kleift að sinna áhugamáli sínu og láta jafnframt gott af sér leiða.

Hugmyndin er sú að fólk velji sjálft flíkurnar, en Ágústa mælir með að þær séu úr slitsterku efni, svo verði útfærslan útfærð í samráði við sjálfboðaliðana.

„Það væri þá í boði að fá annað hvort bangsa eða púða. Það eru kannski ekki allir sem tengja við bangsa, kannski eldri börn.“

Sálfræðiþjónustan skiptir sköpum 

Ágústa segir það stóran útgjaldalið hjá Ljónshjarta að greiða niður sálfræðiþjónustu barna sem misst hafa foreldri.

„Núna í Reykjavíkurmaraþoninu eru margir hlauparar sem hlaupa fyrir Ljónshjarta. Allur ágóðinn af áheitasöfnuninni fer í sjóð sem heitir „Grípum Ljónshjartabörn“ sem nýttur er í að greiða sálfræðiþjónustu sem er svo mikilvæg.“

Á hverju ári missa um 80 til 100 börn foreldri hér á landi og á síðasta ári fóru um 7,5 milljónir í að greiða niður sálfræðiþjónustu fyrir þessi börn, að sögn Ágústu. Það hafi skipt sköpum fyrir þau mæðginin að fá slíka þjónustu.

„Sonur minn er svo ungur þannig ég hef verið að fá verkfæri frá sálfræðingnum hans til að geta útskýrt af því það koma allskonar spurningar. Eins og bara: „af hverju deyr fólk?“ Þó ég hafi reynt að svara þá spyr hann aftur.

Svo segir hann: „Mamma ég elska þig alla ævi, en af hverju þarf fólk að deyja? Af hverju er til krabbamein og af hverju er til Covid?“ Þetta vekur mann líka til umhugsunar og ég get ekki komið með hið fullkomna svar.

Hann segir líka: „Ég trúi að pabbi sé ósýnilegur og fylgist með okkur.“ Ég er mjög opinská og tala um hlutina eins og þeir eru við hann, en auðvitað í samræmi við hans aldur.“

Vill að bangsinn verði snjáður

Ágústa hefur líka verið dugleg að halda minningu Óskars á lofti og láta gott af sér leiða í minningu hans. Það hjálpar henni í sorginni og skiptir hana máli að þessi erfiða reynsla nýtist henni í að hjálpa öðrum. Sjálfri hefur henni þótt gott að geta leitað til annarra í svipuðum sporum.

Óskar lést aðeins tveimur mánuðum fyrir fertugsafmælið sitt og á afmælisdaginn hans hélt Ágústa til að mynda góðgerðarbingó á Eyrabakka, þar sem þau bjuggu, og rann allur ágóði til Krabbameinsfélags Árnessýslu.

Sonurinn fékk líka óvæntan glaðning í bingóinu.

„Þá komu þær með bangsann, ég vissi ekkert að þær kæmu með hann þennan dag, en strákurinn fékk bangsann og hljóp strax með hann út um allt,“ segir Ágústa um bangsann góða.

Bangsinn er í björgunarsveitapeysu, svipaðri og Óskar átti.
Bangsinn er í björgunarsveitapeysu, svipaðri og Óskar átti.

Bangsinn er því alls ekki hugsaður sem skraut uppi á hillu, þó hann sé mjög dýrmætur. Strákurinn má leika og dröslast með hann að vild. Hann hefur til dæmis tekið hann með sér í nýja leikskólann á Akranesi. „Hann tók hann með sér á bangsadaginn og mér fannst svo ótrúlega gaman að hann vildi taka þennan bangsa en ekki einhvern Minecraft-bangsa.“

Hún telur að bangsinn muni fylgja syni hennar alla ævi og vill endilega að það sjáist á honum að hann hafi verið knúsaður og elskaður. Hann megi verða snjáður og fá saumasprettur sem verði þá bara lagaðar.

Ekkert „one size fits all“ í sorginni

Ágústa segir mikilvægt að muna að sorgin er allskonar og hefur ýmsar birtingarmyndir. Fólk geti upplifað mismunandi tilfinningar við sömu aðstæður. „Manni má líða allskonar. Maður má vera reiður, maður má hlæja og grínast. Það er ekkert „one size fits all“ í sorginni. Hún kemur í allskonar bylgjum,“

„Það eru ekkert endilega þessir stóru dagar sem eru erfiðir, eins og jól og afmæli. Það geta líka verið litlir hlutir. Eins og „æj nú væri gaman að geta sent honum eitthvað á Facebook“. Svo segi ég stundum við strákinn: „Pabbi þinn myndi hlæja mikið af þessu.“ Segir Ágústa en þau mæðginin tala mikið um Óskar. Oft minnist strákurinn líka á eitthvað fyndið og skemmtilegt sem hann man, en það er ekkert endilega alltaf eitthvað sem Ágústa myndi kjósa að væri honum efst í huga.

Oft er hún líka hrædd um að sonurinn gleymi einhverju um pabba sinn sem henni þykir mikilvægt og finnst henni hún þurfa að rifja það upp með honum og útskýra.

„Ég reyni að varðveita góðu minningar með honum, frekar en að muna hvað ég var þreytt þegar pabbi hans var mikið á sjúkrahúsi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert