Gera þarf ríkari kröfur til framsals lögregluvalds

Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, hefur sent forseta Alþingis ábendingu í …
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, hefur sent forseta Alþingis ábendingu í kjölfar svars frá dómsmálaráðuneytinu vegna spurninga um vopnaða erlenda lögregluþjóna hér á landi í maí í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins. Samsett mynd

Umboðsmaður Alþingis hefur sent forseta Alþingis ábendingu í kjölfar svars frá dómsmálaráðuneytinu vegna spurninga um vopnaða erlenda lögregluþjóna hér á landi í maí.

Í ábendingu umboðsmanns segir að heimild ríkislögreglustjóra til að fela erlendum ríkisborgurum framkvæmd löggæsluverkefna á Íslandi sé ekki ótakmörkuð og að gera þurfi ríkari kröfur til framsals lögregluvalds en ella þar sem það heyri til kjarna framkvæmdavaldsins.

Orðalag í lögreglulögum of rúmt

Bendir umboðsmaður forseta Alþingis á að orðalag í lögreglulögum, um heimild ríkislögreglustjóra til að fela erlendum ríkisborgurum framkvæmd löggæsluverkefna á Íslandi, sé of rúmt með tilliti til vilja löggjafans og almennra sjónarmiða um framsal valdheimilda og til þess fallið að valda misskilningi um markmið þess og önnur atriði sem við eigi.

Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum og skýringum vegna veru vopnaðra og einkennisklæddra erlendra lögreglumanna hér á landi í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins.

Ekki tilefni til að ætla að tekið verði tillit til sjónarmiða umboðsmanns

Af svari ráðuneytisins mátti ráða að það teldi orðalag greinar í lögreglulögum, sem heimilar þetta, ekki vera of víðtækt en tekið yrði til athugunar hvort tilefni væri til að setja nánari reglur um samstarf lögreglu við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir. Ekkert kom þó nánar fram um markmið eða efni slíkra reglna né hvort tekið yrði tillit til sjónarmiða í fyrirspurnarbréfi umboðsmanns. Þá er ljóst að ráðuneytið lítur svo á að það hafi verið fyllilega í samræmi við heimildir ríkislögreglustjóra að fela erlendu lögreglumönnunum umrædd verkefni.

Samkvæmt lögskýringargögnum hafi verið gert ráð fyrir því að heimild ríkislögreglustjóra, að þessu leyti, kynni að verða nánar afmörkuð með frekari reglum dómsmálaráðherra. Svör ráðuneytisins gefa ekki tilefni til að ætla að með slíkum reglum, ef þær yrðu settar, verði sérstaklega tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem umboðsmaður hefði komið á framfæri við það, sem segir í ábendingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert