„Ég er að kafna úr stressi“

Edda Björk Arnardóttir óttast að drengirnir hennar verði fluttir með …
Edda Björk Arnardóttir óttast að drengirnir hennar verði fluttir með valdi til Noregs. Ljósmynd/Aðsend

„Við vitum ekki hvað er að fara að gerast og erum alltaf með þetta hangandi yfir okkur að þeir mæti einhvers staðar. Strákarnir aðallega,“ segir Edda Björk Arnardóttir, sem ásamt sonum sínum býr við stöðugan ótta við að þeir verði teknir með valdi úr umsjá hennar og fluttir til föður síns í Noregi, með aðfararaðgerð.

Edda nam syni sína þrjá á brott frá Noregi í mars síðasta ári, í óþökk föður þeirra, og hafa þeir búið hjá henni á Íslandi síðan. Faðirinn er íslenskur en hefur búið í Noregi um árabil og bjó öll fjölskyldan þar áður en Edda og barnsfaðir hennar skildu.

Norskur dómstóll úrskurðaði að drengirnir skyldu hafa lögheimili hjá föður sínum og að hann skyldi einn fara með forsjá þeirra.

Fyrr á þessi ári staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms Reykja­vík­ur, að syn­irn­ir skyldu tekn­ir úr um­sjá Eddu og þeir færðir aft­ur til föður síns í Nor­egi, þvert gegn vilja sínum. Hef­ur Edda þó kært niður­stöðu ís­lenskra dóm­stóla til Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu en bíður enn niðurstöðu um hvort málið verði tekið fyrir eða ekki.

Krefst þess að lögregluvaldi sé ekki beitt

Drengirnir, tvíburar á þrettánda ári og tíu ára bróðir þeirra, hafa allir greint skýrt frá því í samtölum við dómkvaddan matsmann að þeir vilji búa hjá móður sinni á Íslandi. Kom það fram í mati sálfræðings fyrir dómi að það gæti valdið drengjunum vanlíðan og kvíða að vera færðir aftur til föður sín.

Það er faðir drengjanna sem stýrir því hvenær aðfararaðgerð fer fram, en Edda segist oftar en einu sinni hafa boðið honum að framkvæma aðgerðina á heimili hennar til að ljúka málinu. Þá hefur Edda krafist þess að lögregluvaldi verði ekki beitt við aðgerðina því það brjóti gegn barnalögum, Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og Mannréttindasáttmála Evrópu. Enda búi drengirnir við góðar aðstæður hjá henni og séu ekki í neinni hættu.

„Ég er í órétti, eins og staðan er núna, ég viðurkenni það alveg. Þess vegna höfum við boðið þessa aðför. Við viljum að vilji drengjanna sé virtur,“ segir Edda.

Henni þykir mjög óeðlilegt að heimilt sé beita valdi við aðfararaðgerð þar sem börn eru færð úr umsjá eins foreldris til annars. Hún krefst þess að það sé hvorki gert í skólum, né á sjúkrahúsi, eins og gert var sumarið 2022 í öðru máli. Hún telur eðlilegt að aðgerðin fari fram á heimili hennar. Ef drengirnir lýsi sig andvíga því að fara, þá beri sýslumanni að virða vilja þeirra og ljúka aðgerðinni sem árangurslausri.

Faðir ekki sett sig í samband við drengina 

Aðför getur farið fram þannig að drengirnir verði sóttir í skólann en Edda óttast að slíkt gæti ekki bara haft neikvæð áhrif á drengina sjálfa, heldur líka skólafélaga þeirra.

„Við höfum beðið dómsmálaráðuneytið um að taka þetta úr aðfararbeiðninni, að það megi ekki gera þetta og það er ekki síður vegna hinna barnanna. Geturðu ímyndað þér áfallið sem önnur börn, vinir þeirra yrðu fyrir, ef þeir yrðu dregnir út með lögregluvaldi alveg brjálaðir og farið með þá úr landi.“

Edda bendir á að eldri drengirnir séu að verða unglingar og það þyki öllum sem komi að málinu sérkennilegt að þeir hafi ekkert um sitt líf að segja.

Hún segir föður drengjanna ekki hafa sett sig í samband við þá eða óskað eftir að fá að hitta þá. Sjálf segist hún reglulega hafa boðið honum að heyra í þeim

„Hann talaði við þá í 20 mínútur á jóladag og það eru einu samskiptin sem þeir hafa átt í eitt og hálft ár. Ég hef sent nokkrum sinnum tölvupóst og skilaboð á hann um að hann megi endilega heyra í þeim en því er ekki svarað.“

Bindur vonir við að hann bakki

Spurð hvernig þeim takist að lifa eðlilegu lífi með þetta hangandi yfir sér segir hún óvissuna mikinn streituvald. „Ég er að kafna úr stressi en við verðum að reyna. Þetta er bara lífið okkar eins og það er. Þeir verða að fá lifa sínu lífi, annað er ekki hægt.“

Innst inni bindur hún vonir við að faðir drengjanna sjái að sér.

„Ég bind einhverjar vonir við að hann bakki. Sjái að þetta er ekki það sem börnin vilja. Að hann hætti þessu af því þeir vilja ekki fara. Ég vona það innilega að hann taki þá ákvörðun að hugsa um þeirra hag.“

Ef það gerist ekki vill vonast hún að málinu ljúki sem fyrst með öðrum hætti.

„Við viljum klára þetta, að þeir komi og tali við strákana og samþykki að þeir vilji ekki fara svo það sé hægt að lýsa þessari aðför árangurslausri. Þeir geta gert það og þá er þetta búið. Það er helsti möguleikinn, að þeir komi og taki tillit til vilja barnanna. Það væri eðlilegast í stöðunni. Ef hann ætlar ekki að gera neitt þá vonum við að sýslumaður lýsi aðförinni sem árangurslausri. Það er ekki hægt að láta okkur bíða og bíða. Þetta er ekki staða sem er boðleg fyrir neinn, allra síst strákana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert