213 tilfelli lekanda það sem af er ári

Notkun smokka við kynlíf er góð vörn gegn kynsjúkdómum
Notkun smokka við kynlíf er góð vörn gegn kynsjúkdómum mbl.is/Eggert

Mikil aukning hefur orðið á greiningum kynsjúkdómsins lekanda á Íslandi. Í fyrra greindust 158 einstaklingar og er það mesti fjöldi sem hafði greinst í 30 ár, en eftir 1990 hafði dregið mjög úr nýgengi sjúkdómsins. Tilfellum lekanda heldur áfram að fjölga og með ágústmánuði í ár hafa greinst 213 tilfelli lekanda. Þannig er fjöldi greininga orðinn mun meiri á fyrstu átta mánuðum ársins en allt árið í fyrra. Þetta kemur fram á vef Landlæknisembættisins.

Lekandi er kynsjúkdómur sem orsakast af bakteríunni Neisseria gonorrhoeae. Lekandi smitast oftast við beina snertingu slímhúða við kynlíf og getur bakterían tekið sér bólfestu í kynfærum, þvagrás, endaþarmi og hálsi. Þaðan getur bakterían borist í augu með sýktum vessa og valdið augnsýkingu hjá nýburum við fæðingu.

Hjá körlum er algengasta einkennið sviði eða óþægindi við þvaglát (þvagrásarbólga) með graftarkenndri útferð úr þvagrás. Einkennalaus sýking karla er sjaldgæfari en hjá konum.

Einkenni sýkingar í þvag- og kynfærum kvenna eru oft breytt eða aukin útferð og kviðverkir um neðanverðan kvið. Önnur einkenni eru milliblæðingar eða sviði og óþægindi við þvaglát. Konur eru oft einkennalausar eða einkennalitlar.

Smokkurinn góð vörn gegn kynsjúkdómum

Notkun smokka við kynlíf er góð vörn gegn kynsjúkdómum og dregur verulega úr smiti lekandabakteríunnar.

Sóttvarnarlæknir hvetur einstaklinga sem hafa grun um að hafa smitast af lekanda, hvort sem einkenni eru til staðar eða ekki, að fara í sýnatöku. Meðferð er til við lekanda og það er mikilvægt að ljúka henni og ekki stunda kynlíf á meðan meðferð stendur. Hægt er að fara í sýnatöku án endurgjalds á göngudeild húð-og kynsjúkdóma og á heilsugæslustöðvum.

Sjá nánar á vef Landlæknisembættisins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert