Hauskúpa finnst í Ráðherrabústaðnum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á vettvangi beinafundarins í risinu í Ráðherrabústaðnum …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á vettvangi beinafundarins í risinu í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Höfuðkúpubein úr manni fundust í fyrri viku undir gólffjölum í risi Ráðherrabústaðarins við Tjarnargötu, þar sem endurbætur standa nú yfir. Rannsóknir og aldursgreining standa nú yfir á beinunum í Þjóðminjasafninu.

„Það var verið að fjarlægja gólffjalir og gamla einangrun uppi í risi, þegar iðnaðarmennirnir fundu tvö brot úr höfuðkúpu af manneskju undir gólffjölunum og brá óneitanlega nokkuð við,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali við mbl.is.

Dularfullt mál

„Þetta er hið dularfyllsta mál og við vitum ekki af hverjum höfuðkúpan er, síðan hvenær hún er eða hvenær henni var komið fyrir þarna undir gólffjölunum,“ bætir Katrín við. „Það er talið að beinin séu gömul og jafnvel að þau hafi verið gömul þegar þeim var komið fyrir, en um það vitum við lítið fyrir víst, enn sem komið er.“

Lítill umgangur er um ris hússins að öllu jöfnu og …
Lítill umgangur er um ris hússins að öllu jöfnu og Katrín minnir á að ekki sé óþekkt að bein finnist í húsum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að sögn forsætisráðherra var lögreglu gert viðvart, sem tók við beinunum og afhenti þau svo þjóðminjaverði, en fræðimenn á Þjóðminjasafninu hafa þau til skoðunar og munu komast til botns í gátunni um aldur þeirra.

Lítill umgangur er um ris hússins að öllu jöfnu og Katrín minnir á að ekki sé óþekkt að bein finnist í húsum, líkt og gerst hafi í húsi á Vitastíg snemma á þessari öld. „En þetta er nú samt harla óvenjulegt.“

Freistandi sakamálasöguefni

Katrín Jakobsdóttir er ekki aðeins forsætisráðherra heldur vinsæll sakamálahöfundur og ötull lesandi slíkra bókmennta. Höfuðkúpufundurinn hlýtur að hafa vakið ýmsar hugrenningar?

„Þetta er óneitanlega mjög freistandi söguefni,“ segir hún kímin. „En frumskylda mín sem ráðherra er að láta rannsaka aldurinn og kanna hvað kunni að búa að baki.“ Katrín segir ýmislegt koma til greina í þeim efnum, enda hafi húsið staðið lengi í Tjarnargötu og þar áður vestur á fjörðum.

Ekki grunur um glæp

„Það er enginn grunur um glæpsamlegt athæfi, svo þó að sakamálahöfundinum detti ýmislegt í hug, þá eru engar vísbendingar um það,“ segir Katrín.

„Kenningin, sem við getum samt lítið stutt fyrr en sérfræðingarnir hafa lokið sinni vinnu, er að beinin hafi þegar verið gömul þegar þeim var komið fyrir undir gólffjölunum.“

Nýverið hófust viðhald og endurbætur á Ráðherrabústaðnum, m.a. með tilliti til aukinna brunavarna, en gagngerar breytingar voru gerðar á bústaðnum árið 1980 og húsið frekar gert upp undir lok aldarinnar. Nú þótti tímabært að leggja í viðhaldsframkvæmdir á ný, enda hefur notkun þess aukist talsvert hin síðari ár, aðallega á vegum forsætisráðherra, til ríkisstjórnarfunda og þess háttar.

Ráðherrabústaðurinn í Tjarnargötu. Húsið var upphaflega reist í Önundarfirði 1892, …
Ráðherrabústaðurinn í Tjarnargötu. Húsið var upphaflega reist í Önundarfirði 1892, en flutt til Reykjavíkur og endurreist af Hannesi Hafstein, fyrsta ráðherra Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sögufrægt hús

Ráðherrabústaðurinn er sögufrægt hús. Það var upphaflega reist árið 1892 á Sólbakka í Önundarfirði, í hlíðinni ofan við Flateyri, af Norðmanninum Hans Ellefssen, sem þar reisti og rak mikla hvalveiðistöð. Húsið var að líkindum flutt inn til sniðið frá Noregi og var upphafleg einlyft bjálkahús með myndarlegum miðjukvisti.

Þegar hvalveiðar dvínuðu um aldamótin 1900 og Ellefsen hætti útgerðinni þaðan, seldi hann húsið vini sínum Hannesi Hafstein, skáldi og sýslumanni, fyrir 1 krónu (sumir segja 5 kr.).

Eftir að Ísland fékk heimastjórn og Hannes varð fyrsti ráðherra landsins árið 1904, lét hann taka húsið í sundur og flytja það suður til Reykjavíkur, þar sem það var reist að nýju og endurbætt verulega af Rögnvaldi Ólafssyni húsameistara að Tjarnargötu 32. Það var endurreist 1906 en Hannes flutti inn í það 1907.

Eftir að Hannes lét af embætti 1909 beitti Björn Jónsson, arftaki hans sem ráðherra Íslands, sér fyrir því að Landssjóður keypti húsið og gerði að föstum ráðherrabústað. Voru þá flutt í húsið húsgögn og annar húsbúnaður, allt prýtt inngreyptu fálkamerki, sem smíðuð höfðu verið vegna konungskomunnar 1907.

Ráðherrabústaðurinn var embættisbústaður forsætisráðherra allt fram yfir 1940, en síðasti forsætisráðherrann sem bjó þar var Hermann Jónasson. Ýmsir embættismenn bjuggu þar þó um lengri eða skemmri tíma áratugina á eftir, en hæðin notuð undir móttökur og fundi. Þá hafa ýmsir tignir gestir gist þar og má nefna Davíð Ben Gúríon forsætisráðherra Ísraels, Filippus hertoga af Edinborg, Helmut Schmidt Þýskalandskanslara og Kekkonen Finnlandsforseta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert