Örtröð enn á ný í Leifsstöð

Löng röð hefur myndast í öryggisleitina.
Löng röð hefur myndast í öryggisleitina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikið öngþveiti hefur verið í Leifsstöð í morgun þar sem fáliðað starfsfólk Isavia hefur þurft að hafa hraðar hendur við að innrita fjölda farþega sem er á leið úr landinu.

Löng röð hefur myndast í öryggisleitina og nær hún alla leið niður í komusalinn.

Á mánudaginn var greint frá því að mikil örtröð hafi verið í Leifsstöð þar sem biðraðir náðu niður í komusal. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, sagði þá ástæðuna mega rekja til undirmönnunar í starfsmannahópnum vegna veikinda.

Uppfært 08:33

Í samtali við mbl.is í dag segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, að ekki sé um undirmönnun eða veikindi að ræða líkt og á mánudaginn. 

„Fimmtudagar eru þungir alla jafna og þetta var aðeins afmarkað tímabil þar sem röðin náði niður stigann. 

Hann segir vissulega enn veikindi innan starfsmannahópsins, en að tekist hafi að fá aðra starfsmenn til að hlaupa í skarðið og halda öllum öryggisleitarstöðvum opnum í dag. 

„Við vinnum með ákveðinn viðmiðunartíma og við miðum við að 99 prósent farþega séu undir 15 mínútur að fara í gegn um öryggisleit,“ segir Guðjón.

Það miðast að hans sögn við tímann frá því að farþegi fer í röðina og þar til hann er komin í gegn um öryggisleit. Þegar röðin hafi verið hvað verst í morgun hafi ferlið tekið um 20 plús mínútur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert