Ferðamaður tætir upp hálendið á 14 tonna trukk

Ævintýramaðurinn Pete Ruppert festi 14 tonna hertrukk á hálendinu á …
Ævintýramaðurinn Pete Ruppert festi 14 tonna hertrukk á hálendinu á dögunum. Greip hann til þess ráðs að grafa holu í veginn og nýta sér bíldekk sem hálfgert akkeri til að toga trukkinn áfram. Skjáskot/Youtube

Þýskur ævintýramaður Pete Ruppert að nafni hefur ferðast um Ísland á 14 tonna hertrukk og valdið miklum skaða á friðlýstu landi. Hann segist ekki ætla að heimsækja landið aftur.

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá en myndböndin sem ferðalangurinn birti á YouTube-rásinni Pete Ruppert Universe sýna glannalegan akstur hans um náttúru Íslands.

Trukkurinn festist á dögunum á vegi í Þjórsárverum og olli skemmdum á veginum sem er ekki fyrir nema léttari bíla. Til þess að rétta bifreiðina af grófu hann og samferðamaður hans holu í veginn og nýttu sér 300 kílógramma bíldekk sem hálfgert akkeri til þess að draga bílinn áfram.

Umhverfisstofnun verði látin vita

Jón G. Snæland, félagi í Ferðafrelsi, sagði í viðtali við RÚV að málið væri alvarlegt.

„Hann er náttúrlega svona inni í því heilagasta, Þjórsárverum, og þar keyrir hann bara svona beint af augum eftir því sem honum hentar,“ hefur ríkismiðillinn eftir Jóni sem segir að félagar Ferðafrelsis hafi uppgötvað myndbönd Rupperts í gær.

Jón segir þar að Umhverfisstofnun verði látin vita en lögreglan á Suðurlandi hefur ekki haft spurnir af ferðum jeppans.

Segir Íslendinga vera smánarblett á sköpunarverki drottins

Áhyggjufullir landsmenn geta þó huggað sig við það að ferðalangurinn segist ekki ætla að koma aftur til Íslands. Nokkrir Íslendingar hafa skrifað ummæli undir myndbönd Rupperts og lastað hann fyrir að eyðileggja náttúruna.

Hann hefur svarað sumri gagnrýni þar sem hann þvertekur fyrir að aka á ótroðnum slóðum – það ætti að merkja landslagið betur – og segir m.a. að Íslendingar séu „smánarblettur á sköpunarverki Guðs“ fyrir að veiða hvali.

„[É]g er hvort eð er ekkert að koma aftur til Íslands. Þjóðin er gjörsamlega dekruð af því að mjólka túrista. Verðin eru svívirðilega há og þjónustan slæm. Ísland mun farast vegna græðgi,“ skrifaði hann í svari við gagnrýni eins Íslendings og hélt áfram:

„Íslendingar slátra hvölum. Það er gjörsamlega hið versta. Skammist ykkar, þið eruð smánarblettur á sköpunarverki Guðs.“

Uppfært kl. 22.55

Ferðaklúbbur­inn 4x4 segist sleg­inn yfir fram­ferði ferðamannsins. Vonast klúbburinn eftir því að kæra verði gefin út vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert