Viljum „alls ekki auglýsa landið á þennan máta“

Ævintýramaðurinn Pete Ruppert festi 14 tonna hertrukk á hálendinu á …
Ævintýramaðurinn Pete Ruppert festi 14 tonna hertrukk á hálendinu á dögunum. Greip hann til þeirra ráða að grafa holu í veginn og nýta sér bíldekk sem hálfgert akkeri til að toga bílinn áfram. Skjáskot/Youtube

Ferðaklúbburinn 4x4 er sleginn yfir framferði sem birtist í myndböndum ferðamannsins Pete Rupperts af akstri á stórum trukk á hálendi Íslands.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá klúbbnum en greint var frá því í kvöld að Pete Ruppert, sem rekur Youtube-rásina Pete Ruppert Universe, hafi verið á ferð um Ísland á 14 tonna hertrukk sem olli viðhlítandi skemmdum á vegum landsins.

„Ljóst er að þarna eru unnar umtalsverðar skemmdir á náttúru okkar, slóðum og vegum á hálendinu,“ segir í tilkynningunni.

„Myndböndin bera með sér að þarna er engin virðing borin fyrir því hve náttúran er viðkvæm og böðlast í gegnum slóða og troðninga auk þess sem vísvitandi er ekið utan slóða.“

Vona að kæra verði gefin út

4x4 segir að aðilar sem aka um á 14 tonna trukkum þurfi að sýna sérstaka aðgát og „geta í raun ekki keyrt hvar sem er, enda undirlag víða mjúkt á hálendinu“.

Þá hafi klúbburinn haft samband við umhverfisráðuneytið og ætli þar að auki hafa samband við Umhverfisstofnun til að óska eftir að málið verði skoðað. Þá er vonast eftir því að gefin verði út kæra.

„Svona viljum við ekki láta viðgangast hér á landi og alls ekki auglýsa landið á þennan máta. Vonandi bregðast yfirvöld við þessu til að fólk sjái að við líðum ekki svona traðk á náttúrunni,“ segir í tilkynningunni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert