Búin að vekja athygli á þessu í mörg ár

Sigþrúður Jónsdóttir er formaður Vina Þjórsárvera.
Sigþrúður Jónsdóttir er formaður Vina Þjórsárvera. mbl.is/Sigurður Bogi

„Okkur finnst það skelfilegt að menn skuli keyra þarna og valda svona miklu tjóni,“ segir Sigþrúður Jónsdóttir, formaður Vina Þjórsárvera, í samtali við mbl.is en eins og fram kom í fréttum í gær olli þýski ævintýramaðurinn Pete Ruppert miklum skaða á friðlýstu landi á 14 tonna hertrukki sínum.

Trukkurinn sat meðal annars fastur á vegi í Þjórsárverum á dögunum og olli skemmdum á veginum.

Umhverfisstofnun hefur ekki sinnt þessu

„Við erum búin að vera að vekja athygli á þessu í mörg ár. Það eru ekki merkingar inn í friðlandið. Það eru hvergi skilti sem segir að þú sért kominn í friðland og það eru ekki margar akstursleiðir inn í þetta friðland. Það skrifast á Umhverfisstofnun að hafa ekki sinnt þessu en hún hefur umsjón með friðlöndum og friðlýstum svæðum.

Við höfum sett inn í hús í nágrenninu upplýsingar um friðlandið en það sjá bara þeir sem fara inn í húsin,“ segir Sigþrúður, sem reiknar með að skoða aðstæður og meta skemmdirnar í Þjórsárverum á morgun.

Félagið Vinir Þjórsárvera hafa í mörg ár vakið athygli á því að merkingum í friðlandinu í Þjórsárverum er verulega ábótavant og bent á að vegslóða inn Tjarnaver að Bólstað við Sóleyjarhöfðavað á Þjórsá þurfi að loka vegna hættu á gróður- og jarðvegsskemmdum. Slóði þessi hafði hlutverki að gegna á meðan fjallmenn gistu á Bólstað en því var hætt 1984 og síðan hefur slóðanum ekki verið við haldið.

Reynt að knýja á að slóðanum verði lokað

„Þetta er gamla reiðgatan norður í land milli landshluta. Þetta er á gömlu biskupaleiðinni frá suðri til norður. Þar er vað á Sóleyjarhöfða yfir sem er hestavað en þar hafa menn verið að keyra og ég hef séð það.

Ég hef séð menn á breyttum bílum keyra þarna og þeir hafa valdið skemmdum. Þess vegna höfum verið verið að reyna að knýja á um þessum slóða verði einfaldlega lokað,“ segir Sigþrúður, sem er búsett í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert