Diljá illa brugðið yfir orðum Falasteen

Diljá Mist Einarsdóttir var gestur í Kastljósti í kvöld.
Diljá Mist Einarsdóttir var gestur í Kastljósti í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikill hiti var í Kastljósi kvöldsins á Rúv en Falasteen Abu Libdeh, framkvæmdastjóri hjá ráðgjafafyrirtækinu Ráði, kvaðst fagna árás hryðjuverkasamtakanna Hamas á Ísrael sem olli hörðum orðaskiptum. Diljá Mist Einarsdóttur, formanni utanríkisnefndar, var brugðið við að heyra orð hennar.

„Ég sem Palestínumaður, auðvitað fagna ég þessu. Af því að það er enginn, úti um allan heim, sem er að taka upp mál Palestínumanna. Palestínumenn hafa upplifað mannréttindabrot í tugi ára, fólkið á Gaza-svæðinu er í stærsta fangelsi í heimi og komast hvergi, það er verið að skammta því vatn, rafmagn, matarvörur og eitthvað svona,“ sagði Falasteen Abu Libdeh, framkvæmdastjóri og meðeigandi hjá ráðgjafafyrirtækinu Ráði, sem flutti hingað til lands þegar hún var sextán ára.

Kvaðst hún þá einnig óttast að afleiðing hryðjuverkaárásanna yrði sú að nú væri „tækifæri fyrir forsætisráðherra Ísraels núna, til að útrýma Palestínumönnum“.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur heitið því að tortíma hryðjuverkasamtökunum Hamas og sagði til að mynda fyrr í dag:

„Við höfum alltaf vitað hvað Hamas er. Nú veit heimurinn það líka. Hamas er ISIS (hryðjuverkasamtökin) og við munum vinna gegn þeim eins og nútímaheimurinn sigraði gegn ISIS," sagði Netanjahú í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar fyrr í kvöld.

Falasteen Abu Libdeh til vinstri, fyrir miðju er Magnea Marinósdóttir …
Falasteen Abu Libdeh til vinstri, fyrir miðju er Magnea Marinósdóttir og til hægri er Diljá Mist Einarsdóttir. Skjáskot/Rúv

„Guð minn góður“

Spyrillinn Baldvin Þór Bergsson undraðist á ummælum hennar og bað um nánari skýringu á orðum hennar: „Þú sagðir að þú fagnaðir þessu sem Palestínumaður. Hverju?“

„Það er verið að drepa Palestínumenn dags daglega. Allt í einu er einhver sem getur gert eitthvað, og maður bara: „Hvernig gerðist þetta?“ Ég er stríðsbarn, ég er fædd og uppalin í stríði. Það er svo mikil niðurlæging. Og við teljum okkur vera forréttindabörn, sem erum fædd og uppalin í Jerúsalem, af því að það er ekki eins mikil niðurlæging og er á Gasa,“ sagði Falasteen.

Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkisnefndar, fann sig þá knúna til að tjá sig.

„Bara svo það gæti einskis misskilnings, þá er Falasteen varla að fagna fjöldamorði á saklausum borgurum?“ sagði Diljá Mist.

„Ég fagna því að það sé einhver að gera árás á landtökufólkið,“ svaraði Falasteen.

„Guð minn góður,“ svaraði Diljá Mist, sem taldi sig hafa misskilið orð Falasteen og bætti við að sér væri brugðið yfir orðum hennar.

Íran fagnaði hryðjuverkaárásinni á Ísrael og kvað Diljá málflutninginn Falasteen minna á þann málflutning.

„Við munum líka eftir því að eftir árásirnar á tvíburaturnana þá fagnaði hópur fólks um alla veröld þessum hryllilegu hermdarverkum,“ sagði Diljá. Falasteen svaraði því til að ekki væri um samanburðarhæfa atburði að ræða.

Palestínumenn berjast fyrir sínu frelsi

Seinna í þættinum var rætt um að Íslendingar hlytu að sameinast um að fordæma grimmdarverkin gegn ungu fólki sem hryðjuverkamennirnir myrtu.

Falasteen spurði þá til baka hvort að enginn ætlaði að fordæma framgöngu Ísraels og hvort að þeir væru ekki að gera það sama.

„Ég er þeirrar skoðunar að eitt ódæðisverk réttlæti ekki annað, og mér finnst fyrir neðan allar hellur að tala um að fagna fjöldamorði á börnum og ungmennum,“ sagði Diljá.

Falasteen sagði þá að hún væri ekki að fagna morðum. Diljá sagði þá að gott hafi verið að fá það leiðrétt.

„Ég er enginn morðingi, og enginn hryðjuverkamaður. Palestínumenn eru ekki að fagna morði á fólki. En Palestínumenn eru að berjast fyrir sínu tjáningarfrelsi og frelsi, og að komast út úr þessu stóra fangelsi,“ sagði Falasteen.

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert