Engin „armslengd“ milli Bankasýslu og ráðherra

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir að helstu rök stjórnarliða …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir að helstu rök stjórnarliða fyrir því að Bjarni ætti í raun ekki mikla sök á slakri framkvæmd sölu í ríkishlut Íslandsbanka sé að það sé svo mikil „armslengd á milli bankasýslunnar og ráðherra“. Armslegnd á sér aftur á móti enga stoð í lögum. Samsett mynd

Þingflokksformaður Pírata gagnrýnir fráfarandi fjármálaráðherra fyrir að axla ekki ábyrgð með því að skipta um ráðuneyti. Ítrekar hún álit umboðsmanns þar sem nefnt er að svokölluð armslengd Bankasýslunnar og fjármálaráðherra eigi sér enga stoð í lögum.

Eins og greint hef­ur verið frá munu Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra skipta um ráðherra­stól eft­ir að Bjarni sagði af sér embætti á þriðju­dag­inn, í kjöl­far þess að álit umboðsmanns Alþing­is um söl­una á hlut rík­is­ins í Íslands­banka var birt. 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Árni Sæberg

„Þarna er algjörlega augljóst að Bjarni er ekki að axla neina ábyrgð heldur er hann að skapa frið um að geta selt afganginn af Íslandsbanka. Það er það sem virðist skipta meira máli heldur en að völdum fylgi ábyrgð, sem hann hélt upphaflega fram,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, í samtali við mbl.is.

Aðspurð segir hún að Bjarni hefði „tvímælalaust“ frekar átt að segja sig úr ríkisstjórn.

„Armslengd“ eigi sér enga stoð í lögum

Bendir hún á að álit umboðsmanns snúist ekki aðeins um það hvort Bjarni hafi verið fær um að selja föður sínum hlut í banka eður ei, „heldur kemst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að hann hafi brugðist sínum eftirlits- og stjórnunarskyldum“.

Þórhildur segir að helstu rök stjórnarliða fyrir því að Bjarni ætti í raun ekki mikla sök á slakri framkvæmd á sölu hlut ríkisins í Íslandsbanka sé að það sé svo mikil „armslengd á milli bankasýslunnar og ráðherra“.

Bendir hún á að umboðsmaður hafi lýst því yfir í sínu áliti að hugtakið armslengd ætti sér í raun enga stoð í lögum og að ráðherra beri ábyrgð á að hafa eftirlit með bankasýslunni og tryggja að hún fari að lögum. Hefur hún það eftir umboðsmanni, sem sagði í áliti sínu að „það hugtak á sér raunar ekki skírskotun til löggjafar eða annarra almennt viðurkenndra heimilda íslensks réttar“.

Bjarni Benediktsson, verðandi utanríkisráðherra, ræðir við blaðamann mbl.is að loknum …
Bjarni Benediktsson, verðandi utanríkisráðherra, ræðir við blaðamann mbl.is að loknum blaðamannafundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þarf að stofna rannsóknarnefnd um Íslandsbankasöluna

Þórhildur Sunna heldur áfram: „Þá þurfum við að líta til allra þeirra margvíslegu vanframkvæmda á þessari sölu, meðal annars það að jafnræði – sem er lögbundið – hafi ekki verið tryggt og sömuleiðis að upplýsingaskylda hafi ekki verið virt – sem er líka lögbundin.“

Bætir hún við að það þurfi að fara miklu betur í saumana á sölunni og stofna rannsóknarnefnd um málið. „Því ríkisstjórnin virðist algjörlega ófær um að draga nokkurn lærdóm af þessari sölu og það er ekki hægt að halda áfram í þessu máli fyrr en búið er að fara vel ofan í kjölinn á því,“ segir hún.

Engin stólaskipti ef enginn skiptir um stól

Þórhildur Sunna segist ekki geta sagt til um það hvort ráðherraskipti Bjarna og Þórdísar muni hafa einhverjar breytingar í för með sér, tíminn leiði það í ljós. Aftur á móti muni Þórdís þurfa að kljást við mörg erfið verkefni í nýja ráðuneytinu sínu.

„Þau eru að skipta um ráðherra í miðri á eins og forsætisráðherra hefur lýst yfir að þau séu, er kemur að því að kljást við verðbólgu og aðrar áskoranir í samfélaginu. Það mun taka tíma fyrir hana [Þórdísi] að koma sér inn í þetta ráðuneyti,“ segir Þórhildur Sunna, sem telur því fylgja högg fyrir ríkisfjármálin.

Formenn ríkisstjórnarflokkanna ganga út af blaðamannafundinum.
Formenn ríkisstjórnarflokkanna ganga út af blaðamannafundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hvað utanríkisráðuneytið varðar, er þetta ekki bara þægilegur póstur fyrir Bjarna til þess að stimpla sig út úr stjórnmálum? Þetta er bara afskaplega leiðinlegt gagnvart trausti almennings á þessari ríkisstjórn og ábyrgð í stjórnmálum. Það er engin ábyrgð í því að færa sig ekki einu sinni um einn rass á ráðherrabekknum,“ segir hún.

Vitnar hún þar í það að Bjarni þurfi sennilega ekki að færa sig um sæti í þingsal, þar sem hún segir að sætaskipan ráðherra sé ekki ákveðin út frá ráðuneytinu sjálfu, heldur hversu lengi viðkomandi ráðherra hefur gegnt embætti.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fráfarandi utanríkisráðherra og tilvonandi fjármálaráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fráfarandi utanríkisráðherra og tilvonandi fjármálaráðherra. mbl.is/Óttar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert