Kvika gæti komið upp í jarðskorpuna við Bláa lónið

Orkuver HS orku í Svartsengi og Bláa lónið í bakgrunni. …
Orkuver HS orku í Svartsengi og Bláa lónið í bakgrunni. Mælingar benda til kvikusöfnunar þar nærri. mbl.is/Hákon

Ekki er hægt að útiloka að kvika nái að brjóta sér leið upp í jarðskorpuna norðvestur af fjallinu Þorbirni.

Þetta segir í tilkynningu Veðurstofunnar, þar sem tekið er fram að staðan geti breyst hratt.

Norðvestur af Þorbirni liggur vinsæli ferðamannastaðurinn Bláa lónið, en Svartsengisvirkjunin er þar skammt austar, norður af Þorbirni. 

Kveðst stofnunin fylgjast grannt með þróun mála. Horft sé til þess hvort að fleiri smáskjálftar mælist nær yfirborði, en slík þróun gæfi skýr merki um að kvika væri að brjóta sér leið í gegnum jarðskorpuna.

Yfirleitt fjara kvikuhreyfingar út

„Miðað við mælingar á hádegi eru engin skýr merki um slíkt,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar.

Mikilvægt sé að benda á að yfirleitt, þegar uppi eru kvikuhreyfingar sambærilegar þeim sem sjást nú, fjari þær út og endi ekki með eldgosi.

„En áður hefur verið bent á að sprunguhreyfingar vegna gikkskjálfta nærri og austan Svartsengis gætu mögulega gert kvikunni auðveldara að færast grynnra í skorpunni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert