Fólk hló á réttum stöðum

Valdimar Sverrisson ásamt móður sinni, Önnu Valdimarsdóttur.
Valdimar Sverrisson ásamt móður sinni, Önnu Valdimarsdóttur.

„Þetta gekk mjög vel, þó ég segi sjálfur frá. Fólk hló á réttum stöðum og þagði á réttum stöðum,“ segir Valdimar Sverrisson, ljósmyndari og uppistandari, sem hélt í vikunni 45 mínútna fyrirlestur á risastórri ráðstefnu um andlegan styrk í íþróttum og lífinu sjálfu í Würzburg í Bæjaralandi.

Valdimar missti sjónina árið 2015 eftir skurðaðgerð, þar sem æxli var fjarlægt úr höfði hans og hefur tekist á við þá miklu breytingu á högum sínum með æðruleysi og húmor að vopni. Hann hefur til dæmis snúið sér að uppistandi sem hann lagði aldrei í meðan hann hafði sjónina.

„Ég byrjaði á byrjuninni – að ég hefði farið að hlusta á Bítlana tíu ára og komist að því síðar að ég ætti sama afmælisdag og Paul McCartney. Svo skemmtilega vildi svo til að þennan sama dag sem ég flutti fyrirlesturinn kom síðasta Bítlalagið út,“ segir Valdimar. Að mestu snerist fyrirlesturinn þó um veikindi hans, greininguna og svo lífið eftir að hann missti sjónina.

Valdimar flytur fyrirlestur sinn í Würzburg.
Valdimar flytur fyrirlestur sinn í Würzburg.


„Ég blandaði saman gamni og alvöru og dró hvergi undan en miklar persónuleikabreytingar urðu á mér vegna æxlisins. Eftir að ég varð blindur hef ég reynt að einblína á það jákvæða í lífinu og hugsa sem minnst út í það hvers ég sakna mest frá því ég hafði sjónina. Það gerir mann bara þunglyndan. Þess í stað reyni ég að gefa af mér og skemmta samferðafólki mínu,“ segir Valdimar sem kryddaði mál sitt með gamansömum myndböndum sem hann hefur getið sér gott orð fyrir á undanförnum árum.

Salurinn, sem tekur um 900 manns í sæti, var þéttsetinn og Anna Valdimarsdóttir, sálfræðingur og móðir Valdimars, sem var með honum á ráðstefnunni, segir stemninguna hafa verið mjög góða meðan sonur hennar flutti mál sitt. „Það var eftirtekt, andköf og hlátur, eftir því sem við átti og lófatakinu ætlaði aldrei að linna. Við höfum líka fengð mjög góð viðbrögð eftir fyrirlesturinn.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert