Flugvél Air Atlanta snúið við eftir að hestur losnaði

Flugvélinni var snúið við í 30 þúsund fetum. Mynd úr …
Flugvélinni var snúið við í 30 þúsund fetum. Mynd úr safni. Ljósmynd/Aðsend

Fraktflugvél íslenska flugfélagsins Air Atlanta var snúið við í 30 þúsund fetum eftir að hestur slapp úr stíu um borð og olli miklu uppnámi. BBC greinir frá. 

Atvikið gerðist á fimmtudaginn í síðustu viku þegar Boeing 747-vélin var á leið frá New York í Bandaríkjunum til Belgíu. Um 90 mínútur voru liðnar frá flugtaki þegar flugmaðurinn neyddist til að taka U-beygju eftir að hesturinn losnaði.

 „Við náum ekki að festa hestinn

„Við erum með lifandi dýr, hest, um borð í flugvélinni. Hestinum tókst að sleppa,“ á flugmaðurinn að hafa sagt við flugumferðarstjórnina. „Við náum ekki að festa hestinn.“

Flugmaðurinn óskaði þá eftir því að dýralæknir myndi vera til staðar þegar flugvélin myndi lenda á John F Kennedy-flugvellinum.

Ekki liggur fyrir hvernig hestinum tókst að opna stíuna en hann var laus þegar vélin lenti á flugvellinum. 

Í umfjöllun BBC segir að þetta sé ekki í fyrsta skiptið sem að dýr losnar um borð í fraktflugvél. Í ágúst hafi til að mynda björn losnað úr búri um borð í flugvél sem var á leið frá Dúbaí til Bagdad.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert