„Þetta er bara ekki boðlegt“

Börn að leik við Tjörnina. Skólakerfi landsins er í deiglunni …
Börn að leik við Tjörnina. Skólakerfi landsins er í deiglunni eftir niðurstöður PISA-könnunar sem kynntar voru í gær. Þórður Arnar Þórðarson

Fjörutíu prósent fimmtán ára nemenda á Íslandi búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi. Þetta sýna niðurstöður PISA-könnunar síðasta árs, sem birtar voru í gær.

Hlutfall nemenda sem ná þessari grunnhæfni, eða um 60%, hefur lækkað um 14 prósentustig hér á landi frá síðustu könnun. Til samanburðar hefur prósentustigið annars staðar á Norðurlöndum lækkað um 3-8 prósentustig. Þar og í OECD-ríkjunum búa að meðaltali 26% 15 ára nemenda ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi.

Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla segir tíðindin ekki koma sér í opna skjöldu.

„Niðurstöðurnar koma mér bara akkúrat ekkert á óvart – ekki neitt. Þetta er algjörlega það sem ég bjóst við. Þetta var í farvatninu og verður áfram.“

Hefur hrakað frá aldamótum

Þú hefur sem sagt orðið var við að færni nemenda hafi hrakað svona mikið og á svona skömmum tíma?

„Já, þessu er búið að hraka frá aldamótum. Árin 2009 og 2018 komu smá uppsveiflur, en þessu er búið að hraka frá aldamótum og það er ekkert sem bendir til þess að þetta sé að fara að batna. Það er ekkert í spilunum með það. Það er bara sama stefna sem er búin að vera nokkurn veginn frá aldamótum, eða síðan sveitarfélögin tóku við grunnskólunum.“

Nú er mjög hátt fall frá síðustu könnun, árið 2018. Rímar það við þína tilfinningu síðustu fjögur ár?

„Já, það gerir það. Ég veit ekki hvort fólk átti sig á því hversu hátt þetta fall er núna. Krakkarnir núna eru að tapa meira en heilu skólaári, núna á milli kannana. Ef krakkarnir 2018 fengu tíu ára skólanám, þá fengu þessir níu ára skólanám. Þetta er eitt ár sem er farið, eða 10%, í súginn.“

Jón Pétur vísar til þess að 30 stig í PISA-könnuninni jafngildi einu skólaári.

„Og við erum að falla um meira en 30 stig í tveimur greinum og um tæplega 30 stig í einni. Þannig að að meðaltali erum við að falla um meira en heilt skólaár.“

Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla.
Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Í raun brot á grunnskólalögum

Hann heldur áfram:

„Það er náttúrulega í raun brot á grunnskólalögum. Þar stendur að við eigum að búa nemendur undir að taka þátt í lýðræðissamfélagi. Og þegar við erum með rétt rúmlega 50% drengja sem geta skilið það sem fer fram í fjölmiðlum, í töluðu máli og í rituðu máli, þá er það bara ávísun á að nemendur geti ekki tekið þátt í lýðræðissamfélagi. Ekki þegar þeir skilja ekki hvað er í gangi í kringum þá,“ segir Jón Pétur.

„Þetta er alveg grafalvarlegt.“

Spurður um orsakir þessa nefnir hann að umbúðanám, eins og hann kýs að kalla það, hafi færst í aukana.

„Það er nám sem lítur vel út á pappírunum, en innihaldið er ekkert. Það er ríkjandi alltof víða og hjálpar ekki til. En það bitnar síðan mest á þeim sem standa höllustum fæti. Bitnar mest á þeim sem hafa slakasta félagslega, fjárhagslega bakgrunninn, þeim sem fá minnstu hjálpina heima. Þar sem skólinn á að vera jöfnunartæki – þar bregst skólinn algjörlega.“

Lítur allt vel út en enginn árangur

Geturðu lýst betur þessu umbúðanámi?

„Það eru einhver svona verkefni sem eru unnin án þess að það sé grunnur lagður. Það er einhvers konar verkefni sem er lagt fyrir – grunnhugtökin eru ekki kennd í því sem er verið að fara að vinna með. Þau eru ekki lögð inn að fullnustu, heldur eiga nemendur sjálfir að finna út og leita. Fyrir vikið verður alls konar afritun, klippt og límt, þýðingar með hjálp forrita, einhverjar myndir settar inn og tónlist sett undir. Svo það lítur allt rosa vel út, en það er enginn árangur af náminu,“ segir hann.

„Tæknin er orðin þannig að þú getur púslað saman verkefni sem lítur út fyrir að vera gott, þó að þú vitir eiginlega ekki neitt.“

„Hverjir eru að taka tækifæri af börnunum okkar?“ spyr Jón …
„Hverjir eru að taka tækifæri af börnunum okkar?“ spyr Jón Pétur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Væri búið að láta alla fara

Á sama tíma séu grunnatriði námsins, og sterkari grundvöllur frekara náms, virt að vettugi í kennslu.

„Þessi grunnhugsun um hvað nám gengur út á; orðaforða og hugtakaskilning. Það þykir bara ekkert fínt. En orðaforði er algjör grunnur að öllum greinum.“

Hann kveðst rekast á það viðhorf að allt megi nú finna með hjálp leitarvéla og að þess vegna sé svona lærdómur sífellt óþarfari.

„Að þú getir bara gúglað allt. Þú gúglar ekkert ef þú hefur ekki þekkinguna fyrir. Þá veistu ekki hvaða heimildum á að treysta. Þessi tæknihyggja – að tækni og gervigreind eigi bara að leysa allt – getur valdið því að þú stökkvir yfir þetta mikilvæga þrep sem þekking er í námi. Þekking er völd. Og nú er bara verið að hafa tækifæri af risastórum hluta nemenda í grunnskóla, sem er skyldunám í tíu ár.

Rétt rúmlega 50% drengja geta lesið sér til gagns, og 60% stúlkna. Ef eitthvert fyrirtæki sýndi þennan árangur þá væri einfaldlega búið að láta alla fara. Þetta er bara ekki boðlegt. Að bjóða börnum upp á þetta í tíu ára skyldunámi.“

Hvers vegna er þetta svona?

Jón Pétur segir það ekki myndu koma sér á óvart ef næsta skref yfirvalda væri að draga sig út úr PISA-könnuninni.

„Til að einfaldlega horfast ekki í augu við þetta. Sveitarstjórnarfólk og háskólaprófessorar hafa þegar sagt að þessar tölur séu úr lausu lofti gripnar, og taka ekkert mark á PISA. Ef Háskóli Íslands – sem ber auðvitað stóra ábyrgð í þessu máli – ef hann getur bara gagnrýnislaust talað um að þessar tölur skipti engu máli og að það sé eitthvað annað sem skiptir máli – ég býð ekki í það.“

Hann ítrekar að einhver þurfi að svara fyrir það sem niðurstöðurnar leiða í ljós. „Hverjir eru að taka tækifæri af börnunum okkar? Hver er það sem stjórnar og hvers vegna er þetta svona?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert