Edda Björk vanrækti tilkynningarskyldu

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Eddu Bjarkar …
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Eddu Bjarkar Arnardóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem segir meðal annars að Edda Björk Arnardóttir hafi vanrækt tilkynningarskyldu þegar hún sætti farbanni. 

Í úrskurðinum segir að í kjölfar farbannsins hafi Eddu Björk verið gert að tilkynna sig á tilgreindum dögum þrisvar sinnum í viku á lögreglustöð á höfuðborgarsvæðinu, sem hún hafi vanrækt ítrekað.

Dvelur í Þelamerkurfangelsi

Fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp 1. desember, að Edda Björk hafi sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli norrænnar handtökuskipunar og hafi það staðið til að afhenda hana til norskra yfirvalda.

Sama dag og úrskurðurinn var kveðinn upp var Edda Björk flutt til Noregs, en verjandi hennar gagnrýndi það harðlega að Edda skyldi flutt áður en mál hennar hafði verið tekið fyrir af æðri dómstóli. 

Við komuna til Noregs var Edda Björk úrskurðuð í þrjátíu daga gæsluvarðhald í Þelamerkurfangelsi þar sem hún dvelur nú. 

Vildi úrskurðinn felldan úr gildi

Í úrskurðinum segir jafnframt að Edda Björk hafi krafist þess að gæsluvarðhaldsúrskurður yrði felldur úr gildi á grundvelli þess að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu væri ekki bær til þess að krefjast gæsluvarðhalds á hendur henni.

Gert er grein fyrir kröfu Eddu Bjarkar í niðurstöðu Landsréttar, þar sem henni er vísað frá á grundvelli þess að telja verði að sóknaraðili hafi haft lagalega heimild fyrir því að krefjast gæsluvarðhalds á hendur Eddu Björk.

Gæsluvarðhaldið yfir Eddu Björk heldur því gildi og bíður hún nú þess að aðalmeðferð ákæruvaldsins gegn henni fari fram, en hún er sökuð um barnarán. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert