Fyrstu ruslabaggarnir farnir til Svíþjóðar

Fyrstu baggarnir voru sendir út í byrjun desember.
Fyrstu baggarnir voru sendir út í byrjun desember. Ljósmynd/Sorpa

Sorpa hefur hafið útflutning á blönduðu rusli til orkuvinnslu í Svíþjóðar. Fyrstu baggarnir voru fluttir út í byrjun desember en útflutningur á rusli til oskuvinnslu mun alfarið taka við af urðun á blönduðu rusli fyrir lok þessa árs. Samhliða því verður allri urðun á lífrænum og lyktarsterkum úrgangi í Álfsnesi hætt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sorpu. 

Með þessu er stefnt að því að draga úr urðun í Álfsnesi um 70% milli áranna 2023 og 2024. Við það að hætta að urða blandað rusl og lífrænan úrgang í Álfsnesi má einnig gera ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda frá urðunarstað Sorpu dragist saman um 80% á næstu 10 til 15 árum. Árið 2022 er áætlað að urðunarstaður Sorpu hafi losað um 100.000 tonn af koltvísýringsígildum. Það jafngildir losun um 35.000 til 50.000 fólksbíla.

„Orkuvinnsla úr blönduðu rusli er mun skárri leið til að meðhöndla rusl en að urða það. Með þessu færum við rúmlega 40.000 tonn af blönduðu rusli skör ofar í meðhöndlun, því urðun er það versta sem þú getur gert við rusl og orkuvinnsla er einu skrefi ofar, og flokkast sem endurnýting,“ er haft eftir Jóni Viggó Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Sorpu, í tilkynningu. 

Beita sér af krafti í úrgangsforvörnum og endurnotkun

„Þessar stóru tölur minna okkur þó á mikilvægi þess að horfa ekki bara neðst í forgangsröðina, heldur líka að beita okkur af krafti í úrgangsforvörnum og endurnotkun. Það getum við til dæmis gert með því að kaupa minna, og ef við ætlum á annað borð að kaupa hluti að kaupa þá notaða, til dæmis í Góða hirðinum,“ er einnig haft eftir honum.

Í nýlegum viðauka við samkomulag eigenda um urðunarstað Sorpu í Álfsnesi eru allri urðun í Álfsnesi settar þröngar skorður. Urðun á lífrænum og lyktarsterkum úrgangi, sem og blönduðu rusli, er óheimil. Miklar kröfur gerðar um bætta ásýnd og aðgerðir til að draga úr öðru ónæði af rekstri urðunarstaðarins. Urðun í Álfsnesi skal þar að auki hætt eigi síðar en í lok árs 2030.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert