„Ég hef nú sjálf mótmælt“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur glimmermál utanríkisráðherra í Veröld ekki vatn …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur glimmermál utanríkisráðherra í Veröld ekki vatn á myllu lýðræðislegrar umræðu í þjóðfélaginu og fólk hljóti að velta fyrir sér tilgangi slíkra aðgerða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í fyrsta lagi langar mig að minna á að við eigum mörg dæmi um mjög harkaleg mótmæli í okkar sögu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.

Hóf hún með þeim orðum svar sitt við þeirri spurningu hvort hún teldi atvikið í Veröld 8. desember hafa áhrif á hvort eða hvernig opinberir aðilar og stjórnmálafólk kæmu fram opinberlega og þar með næðu áhrifin jafnvel til lýðræðislegrar umræðu.

Ráðherra rifjar bankahrunið upp og mjög erfið mótmæli sem gengu mjög nærri ákveðnum stjórnmálamönnum. „Þá var mótmælastaða fyrir utan heimili fólks og annað slíkt svo ég myndi kannski ekki segja að þessi mótmæli núna séu einhver eðlisbreyting frá fyrri mótmælum, en ég hef ekki trú á því að mótmæli, þar sem gengið er mjög nálægt persónu einstakra stjórnmálamanna eða fjölskyldum þeirra, eins og gerðist í tilfelli Bjarna Benediktssonar um daginn, styrki lýðræðislega umræðu,“ segir Katrín, fremur væru slík mótmæli til þess fallin að fæla fólk, bæði almenning og stjórnmálamenn, frá þátttöku í slíkri umræðu.

Forréttindin að vera stjórnmálamaður á Íslandi

Myndirðu telja að þetta atvik utanríkisráðherra kallaði á aukna öryggisgæslu þegar æðstu ráðamenn eru á ferð?

Katrín ítrekar fyrri ummæli sín um að þjóðin sé engan veginn óvön harkalegum mótmælum og hér sé ekki um eðlisbreytingu að ræða. „Við þekkjum dæmi um það að sett hafi verið á gæsla kringum einstaka stjórnmálamenn en við búum í friðsamasta landi í heimi – það sýna nú allir mælikvarðar – og mér finnst hluti af því að vera stjórnmálamaður að geta átt milliliðalaus samskipti við almenning, mætt á fundi, gert grein fyrir sínum sjónarmiðum og gengið frjáls um götur. Það eru þau forréttindi að vera stjórnmálamaður á Íslandi og þannig vildi ég hafa það áfram,“ svarar hún.

Aðspurð kveður hún aukna öryggisgæslu geta haft mjög fælandi áhrif á fólk. „Ég hef nú alveg fengið minn skammt af mótmælum en mér finnst það vera hluti af því að vilja vera í stjórnmálum – að geta átt þessi milliliðalausu samskipti við fólk og líka einfaldlega að fá að vera manneskja en ekki eingöngu stjórnmálamaður,“ segir ráðherra.

Skoðanafrekjuhugtak Ólínu Kjerúlf

Í pistli á Facebook viðraði Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, prófessor við félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst, hugtakið skoðanafrekja, það er að þeir sem hæst hafi komist að fremur en meirihlutinn eða rökstuddar skoðanir. Katrín er innt álits á þessu.

„Þetta hjálpar ekki lýðræðislegri umræðu,“ svarar ráðherra eftir stuttan umhugsunarfrest. Þegar stjórnmálamönnum sé boðið á fundi til að tala og þeir komast þar ekki að – eins og ýmsir stjórnmálamenn hafi lent í – þá hjálpi það ekki málefnalegri umræðu.

„Á sama tíma er ég mjög hlynnt réttinum til að mótmæla, þetta er auðvitað alltaf spurning um að finna þetta jafnvægi, þú vilt mótmæla og koma einhverri afstöðu á framfæri, ég hef nú sjálf mótmælt á fyrri tíð, staðið fyrir utan Stjórnarráð og Alþingi og tekið þátt í gjörningum og öðru slíku, en þegar þetta gengur of nærri persónum einstaklinga – ég tala nú ekki um fjölskyldum þeirra – þá finnst mér við vera komin að einhverjum mörkum og þá erum við ekki lengur að hjálpa umræðunni heldur einmitt þvert á móti,“ segir Katrín.

Varla þróun sem komin er til að vera

Telur hún glimmermálið þá setja öðrum mótmælendum einhvers konar fordæmi, að hægt sé að skvetta einhverju á ráðherra til að komast í sviðsljósið?

Katrín rifjar upp þegar eggjum var kastað í höfuð þingmanna sem féllu við, rúður brotnað og annað slíkt. „Það er kannski varhugavert að draga einhverjar ályktanir um að þetta sé þróun sem er komin til að vera. Við höfum séð harkaleg mótmæli á ákveðnum tímum í okkar samfélagi og mér finnst bara mikilvægt að við tökum umræðuna um hvað okkur finnst í lýðræðislegu samfélagi um áhrifin á umræðuna. Þegar þetta gengur of nærri fer þetta að hafa neikvæð áhrif á lýðræðislega umræðu.“

Ertu tilbúin að fordæma þessa aðgerð?

„Mér finnst þessi umræða einmitt ekki eiga að snúast um fordæmingu. Ég ber mikla virðingu fyrir rétti mótmælenda til að hafa áhrif á umræðuna en ítreka það sem ég hef áður sagt, að ég held að við þurfum alltaf að velta þessu jafnvægi fyrir okkur, þegar við erum í stöðu mótmælenda, hvaða áhrif við viljum hafa. Ef aðgerðirnar eru farnar að skila því að lýðræðisleg umræða á sér ekki stað hlýtur fólk að fara að velta fyrir sér tilganginum með slíkum aðgerðum og hvort þær séu í raun að hafa þveröfug áhrif,“ svarar ráðherra.

Staðan á Gasa mannúðarhörmung

Myndirðu segja að þetta tæki umræðuna frá raunverulega málinu – átökunum í Palestínu – og færði hana yfir á innanlandsmál um glimmerkast?

„Vafalaust gerir það það að einhverju leyti en ég vil bara benda á að stjórnvöld eru búin að beita sér mjög gagnvart stöðunni á Gasa sem er hræðileg og algjör mannúðarhörmung sem við erum að sjá þar. Nú síðast fyrir helgi lýstum við yfir stuðningi við ákall aðalritara Sameinuðu þjóðanna og á þriðjudaginn studdum við og vorum meðflutningsmenn að tillögu um tafarlaust vopnahlé á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Ég lít svo á að stjórnvöld hafi fylgt ályktun Alþingis um þetta ástand og nýtt hvert tækifæri til að koma á framfæri skýrum kröfum um tafarlaust vopnahlé, aðgengi fyrir mannúðaraðstoð og svigrúm til þess að setjast niður og ræða einhverjar leiðir til friðar á svæðinu. Við höfum haldið þeirri afstöðu og þessar mótmælaaðgerðir – þótt þær hafi vakið einhverja athygli í þjóðfélaginu – hafa ekkert breytt því að stjórnvöld hafa verið að vinna sína vinnu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert