Samkvæmisleikurinn hafinn

Óhjákvæmilegur samkvæmisleikur fer nú í gang vegna ákvörðunar Guðna Th. Jóhannesonar um að sækjast ekki eftir endurkjöri í forsetakosningum sem fram fara á árinu. Mbl.is tók hús á nokkrum einstaklingum sem nefndir hafa verið í tengslum við embættið. 

Fyrstan á blaði má nefna Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrum borgarstóri og núverandi starfsmann Sameinuðu þjóðanna og hafa nokkrir viðmælendur nefnt nafn hennar í tengslum við embættið. 

Einn þeirra er Pawal Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar. Hann segir í færslu á Facebook að hann telji stjórnmálamann eða manneskju með reynslu af stjórnmálum þurfa í starfið. Ingibjörg fylli öll skilyrði.

Þá nefndi hann einnig Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra í því samhengi en telur hana ekki henta að sinni þar sem hún er á fullu í stjórnmálunum. „Og mér finnst að það eigi að vera smá kælitími á milli,“ segir Pawel. 

Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, telur að maður með reynslu af …
Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, telur að maður með reynslu af stjórnmálum henta í starfið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ingibjörg Sólrún var forstjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu en lét af störfum árið 2020. Þá hefur hún verið staðgengill sérstaks fulltrúa Sameinuðu þjóðanna í Írak frá árinu 2021.

Fyrir yngri manneskju 

Ingibjörg segir hins vegar í samtali við mbl.is að hafi ekki íhugað þetta og segist fráhverf hugmyndinni. „Þetta er svo fjarri mér að ég hef ekki einu sinni skenkt þessu eina hugsun,“ segir Ingibjörg Sólrún. „Mín bjarta framtíð er að baki mér. Ég er búinn með minn starfsferil. Þetta er fyrir yngri manneskju,“ segir Ingibjörg Sólrún sem er 69 ára. 

Rithöfundurinn Andri Snær Magnason var með öflugt framboð í forsetakosningunum árið 2016. Hann segist hins vegar ekki ætla fram að þessu sinni. Hann sé í stórum verkefnum sem eigi hug hans að svo stöddu.  

Enginn sýnt áhuga enn 

Þóra Arnórsdóttir, samskiptastjóri hjá Landsvirkjun og forsetaframbjóðandi árið 2012, hyggst ekki fara fram. Magnús Geir Þórðarson, Þjóðleikhússtjóri, er einn þeirra sem nefndur hefur verið á nafn. Hann segir hins vegar að ekki standi til að bjóða sig fram til forseta.   

Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur hyggst ekki bjóða sig fram. Þorgrímur hafði tilkynnt um framboð til forseta árið 2016 en dró framboð sitt svo til baka á vormánuðum fyrir kosningarnar. 

Ákvörðun Guðna Th. Jóhannessonar um að sækjast ekki eftir áframhaldandi …
Ákvörðun Guðna Th. Jóhannessonar um að sækjast ekki eftir áframhaldandi setu í embætti kom mörgum á óvart. mbl.is/Kristinn Magnússon

Margir nefndir

Þá ber að nefna að nokkrir aðrir einstaklingar hafa verið orðaðir við embættið. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar er ein þeirra, en mbl.is hefur ekki náð tali af henni. 

Sömu sögu er að segja af Lilju Alfreðsdóttur, efnahags- og viðskiptaráðherra en engum sögum fer af áhuga hennar á embættinu. 

Þá ber að nefna að Róbert Spanó, fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu. Hann er einn þeirra manna sem nefndir hafa verið sem forsetaefni. Þykir hann hafa viðeigandi alþjóðlega reynslu sem kann að nýtast í embætti. 

Af fleiri nöfnum sem bendluð hafa verið við embættið má nefna Dag B. Eggertsson, borgarstjóra, Alfreð Gíslason, þjálfara þýska landsliðsins í handbolta og Höllu Tómasdóttur, fyrrum forsetaframbjóðanda sem fékk um 27% atkvæða í forsetakosningunum árið 2016.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert