Ráðherra sakaður um að blokka á Instagram

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra er sökuð um að blokka aðganga á …
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra er sökuð um að blokka aðganga á Instagram. Samsett mynd

Dómsmálaráðherra virðist hafa blokkað aðganga á Instagram sem hafa merkt hann í færslur vegna málefna Palestínumanna. 

Haukur Bragason staðfestir í samtali við mbl.is að Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hafi blokkað hann eftir að hann merkti opinberan aðgang Guðrúnar í færslu, ásamt öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Fjallaði færslan um kröfur félagsins Íslands-Palestínu.

Gerir þetta að verkum að félagið og Haukur geta ekki lengur merkt ráðherrann í færslur, sent honum skilaboð né skoðað prófílinn hans á Instagram.

Ekki haft samskipti við ráðherrann

Ekki virðist mikið hafa þurft til í tilviki Hauks þar sem hann kveðst engin samskipti hafa átt við ráðherrann utan einnar merkingar á Instagram. 

„Ég hef ekkert haft samskipti við dómsmálaráðherra út af einu né neinu fyrir utan þetta eina tagg,“ segir Haukur, sem vakti athygli á hegðun ráðherrans á X. 

Hann segist vita að aðrir hafi lent í því sama, þar á meðal félagið Ísland-Palestína, sem styður baráttu Palestínumanna gegn hernámi og rétt flóttafólks til að snúa til síns heima. 

Félagið krefst þess að fá fund með ráðherrum ríkisstjórnarinnar, fjölskyldur þeirra verði sameinaðar á ný og að brottvísanir palestínsks flóttafólks verði stöðvuð og vernd verði veitt.

Mynd sem Hauk­ur birti í hringrás sinni á In­sta­gram sýn­ir …
Mynd sem Hauk­ur birti í hringrás sinni á In­sta­gram sýn­ir að hann hafi einu sinni merkt ráðherr­ann í færslu. Skjáskot/Instagram
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert