„Virðist vera að ná jafnvægi“

Frá Grindavík í dag.
Frá Grindavík í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vísbendingar eru um að eldgosið við Grindavík sé að ná jafnvægi að sögn Benedikts Gunnars Ófeigssonar, jarðeðlisfræðings og fagstjóra aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.

„Það virðist vera að ná jafnvægi en það eru enn þá hreyfingar, sérstaklega inn í Grindavík, þannig að það er ekki alveg hægt að útiloka að það séu að fara að opnast fleiri sprungur,“ segir Benedikt í samtali við mbl.is.

Eldgos hófst við Grindavík laust fyrir klukkan átta í morgun. Rétt eftir klukkan 12 myndaðist svo ný sprunga við jaðar bæjarins.

Benedikt segir virknina ekki vera að aukast, heldur sé að draga úr aflöguninni. Gosið hafi haldist stöðugt frá því um klukkan þrjú.

Benedikt Gunnar Ófeigsson.
Benedikt Gunnar Ófeigsson. mbl.is/Eyþór

Alls ekkert útilokað að það gerist eitthvað meira

„Hraunið sem er að renna virðist vera að ná einhvers konar jafnvægi og kvikan sem er að flæða inn.“

Hann segir ekki útilokað að fleiri sprungur geti opnast á svæðinu.

„Eftir því sem dregur úr aflögun og skjálftavirkni þá minnka líkurnar, en það er alls ekkert útilokað að það gerist eitthvað meira.

Við vonum bara að það haldi áfram að draga úr þessu, en það verður að koma í ljós.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert