Mælir gegn frekari stýrivaxtahækkun

Gylfi Zoega mælir gegn því að stýrivextir verði hækkaðir.
Gylfi Zoega mælir gegn því að stýrivextir verði hækkaðir. Samsett mynd/mbl.is/Ómar

Seðlabanki Íslands ætti ekki að hækka stýrivexti þrátt fyrir aukna eftirspurn á húsnæðismarkaði, sem mun líklega hækka húsnæðisverð, vegna Grindvíkinga í leit að húsnæði.

Þetta segir Gylfi Zoega, pró­fess­or í hag­fræði við Há­skóla Íslands og fyrrverandi nefnd­armaður í pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabank­ans, í samtali við mbl.is.

Á að sjá í gegnum fingur sér með slíkar breytingar

„Seðlabankinn ætti ekki að bregðast við slíkri hækkun vegna þess að hún felur í sér breytingu á hlutfallslegum verðum, húsnæði verður þá hlutfallslega dýrara.

Húsnæðisverð verður tímabundið hærra vegna aukningar í eftirspurn og þetta er ekki eitthvað sem Seðlabankinn á að bregðast við með vaxtahækkunum. Hann á alltaf að sjá í gegnum fingur sér með slíkar breytingar,“ segir Gylfi.

Hefur ekki tilfinningu fyrir komandi ákvörðun

Hann nefnir að verðhækkun sem þessi hafi ekkert að gera með peningalegt aðhald né almenna eftirspurn innanlands. Hann segir að til langs tíma gæti þó verið skynsamlegt að breyta því hvernig húsnæðisliðurinn reiknast inn í vísitölu neysluverðs.

Peningastefnunefnd Seðlabankans kynnir eftir tvær vikur hvort að stýrivextir verði hækkaðir, lækkaðir eða fái að standa í stað.

Gylfi kveðst ekki hafa tilfinningu fyrir því hvað peningastefnunefnd hyggst gera en segir að það muni væntanlega ráðast af þróun almennrar eftirspurnar í hagkerfinu, verðbólgu og verðbólguvæntingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert